Í fyrrakvöld lagði John Snorri Sigurjónsson á stað upp K2 ásamt þremur félögum sínum. Það er pakistönsku feðgunum Ali og Sajid Sapara og svo Pablo Mohr. Síðast sást til Johns, Sapara og Pablo klukkan fimm að föstudagsmorgni á íslenskum tíma. Engar fregnir hafa borist af þeim síðan. Áður þurfti Sajid Sapara að snúa við eftir að súrefnisbúnaður hans hætti að virka.
Tvær þyrlur sendar á staðinn
„Samkvæmt upplýsingum frá honum sá hann þá þrjá Ali, Pablo og John vera í svokölluðum flöskuháls á leiðinni upp,“ segir fjölskylduvinurinn Gestur Pétursson í samtali við fréttastofu. Þá hafi þeir verið í um 8.200 metra hæð en fjallið er rúmlega 8600 metra hátt.
Gestur segir leit nú hafna að þremenningunum sem pakistönsk stjórnvöld stýri en tvær þyrlur pakistanska hersins flugu yfir svæðið í morgun og viðbótarmannskapur verið sendur í grunnbúðirnar út af leitinni.
Reyna að tengjast gervihnattasímum
„Þyrlurnar geta bara flogið ákveðið hátt svo það er verið að skoða möguleikann á því að fá herflutningavél til að fljúga í kringum fjallið og reyna að staðsetja þá. Þar að auki er verið að kanna möguleikann á því að fá gervihnetti til að horfa á svæðið því að tæknin þar er orðin svo mikil að það gæti aðstoðað við leitina.“
Þá er verið að kanna hvort hægt sé að nýta gervihnattasíma þeirra til að finna þá. Þar að auki sé fjölskylda Johns í beinu sambandi við aðila í Bandaríkjunum, fólk í pakistanska hernum og aðila sem stýra grunnbúðunum.
Lögreglan hér á landi verið fjölskyldunni innan handar
„Íslenska utanríkisþjónustan hefur reynst okkur og fjölskyldunni frábærlega í þessu og verið virkilega verðmætur og góður stuðningur. Fjarskiptamiðstöð lögreglunnar hefur líka verið að styðja við bakið á okkur með því að meðal annars að fá upplýsingar frá þessu gervihnattasímafyrirtæki.“
John Snorri varð sumarið 2017 fyrsti Íslendingurinn til að klífa K2. Hann ætlaði einnig að verða sá fyrsti til að klífa það að vetri til og hefur verið á svæðinu síðan í nóvember við undirbúning.
Annar hópur náði þó þeim áfanga í janúar að vera á undan John Snorra og félögum og var þar með sá fyrsti til að komast á toppinn að vetrarlagi. Er þetta nú önnur atlaga Johns að fjallinu að vetri til en hann varð frá að hverfa í janúar vegna veðurs.
Gestur er nú á heimili Johns Snorra og eiginkonu hans Línu Móeyjar en þar hafa vinir og fjölskylda sett upp nokkurs konar stjórnstöð vegna leitarinnar. Þau halda öll í vonina um John Snorri og félagar finnist fljótt en Gestur segir líðan fólksins vera eftir atvikum.
Eruð þið vongóð um að hann muni finnast?
„Við trúum því að John Snorri og Ali séu það sterkt teymi að það sé ástæða til að vera bjartsýn enn þá.“