Sjerpinn Chhang Dawa greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni. Þar segir hann leitina hafa verið árangurslausa og aðstæður í fjallinu og grunnbúðum fari versnandi.
„Við erum að vonast eftir frekari árangri, en veður og vindar leyfa það ekki eins og er,“ skrifar Dawa.
Sajid Sadpara, göngufélagi Johns Snorra, sneri við á lokasprettinum þegar súrefniskútur hans hætti að virka og er hann kominn heill á húfi í fyrstu búðir fjallsins. Hann mun fara niður í grunnbúðirnar nú fljótlega.
Síðast sást til Johns Snorra, Ali Sadpara og JP Mohr klukkan fimm að föstudagsmorgni á íslenskum tíma, en hópurinn lagði af stað á fimmtudag áleiðis á topp K2. Greint var frá því í morgun að engar fregnir hefðu borist af þeim síðan þá.
„Okkur þykir miður að greina frá því að við höfum ekki fengið neinar fréttir af John, Ali og Pablo eftir nóttina. Eina sem við vitum er að Sajid Ali er öruggur á leið niður úr þriðju búðum,“ sagði í færslu á Facebook-síðu Johns Snorra.