Viðskipti innlent

Pétur Árni keypti hið sögufræga hús Kjarvals

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Myndin er tekin í stofu hússins þegar það var sett á sölu fyrir rúmu ári síðan.
Myndin er tekin í stofu hússins þegar það var sett á sölu fyrir rúmu ári síðan. Fasteignaljósmyndun

Pétur Árni Jónsson, framkvæmdastjóri HEILD fasteignafélags og aðaleigandi útgáfufélags Viðskiptablaðsins, hefur fest kaup á hinu sögufræga Kjarvalshúsi sem stendur við Sæbraut 1 á Seltjarnarnesi.

Frá þessu er greint í Markaðnum í dag, fylgiblaði Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. Bandaríski fjárfestirinn og listaverkasafnarinn Oliver Luckett keypti húsið árið 2016 og var það svo auglýst til sölu í desember 2019. Fasteignamat hússins er ríflega 200 milljónir.

Húsið, sem byggt er árið 1969, var teiknað af Þorvaldi S. Þorvaldssyni fyrir Jóhannes S. Kjarval listmálara sem gjöf frá íslensku þjóðinni.

Pétur Árni Jónsson, nýr eigandi húss Kjarvals.

Þorvaldur teiknaði húsið með sérþarfir listmálarans í huga. Þannig var stofan til að mynda ætluð sem vinnustofa listmálarans, enda heppileg til listsköpunar með fimm metra lofthæð og stórum gluggum.

Þegar húsið var tilbúið hugnaðist honum þó ekki að flytja í það og var það notað undir þjónustu við fötluð börn. Hjónin Ingunn Benediktsdóttir og Högni Óskarsson eignuðust svo húsið árið 1991.

Kjarvalshúsið er rúmir 440 fermetrar á tveimur hæðum og stendur á 880 fermetra lóð. Í því er að finna fimm svefnherbergi, þrjú baðherbergi, rúmgóðar suðursvalir og þvottahús.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×