Innlent

Kafnandi konu bjargað með Heim­lich-að­ferðinni

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Sjúkraflutningamenn þurftu að fjarlægja matinn úr hálsi konunnar með töng.
Sjúkraflutningamenn þurftu að fjarlægja matinn úr hálsi konunnar með töng. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk um klukkan hálf tíu í gærkvöldi útkall á veitingahús í miðborg Reykjavíkur vegna konu sem gat ekki andað eftir að matur festist í hálsi hennar.

Heimlich-aðferð var beitt á konuna og gat hún þá andað á nýjan leik, en matarbitinn sat þó enn fastur í hálsi hennar þar til sjúkraflutningamenn komu á vettvang og fjarlægðu hann með töng. Konan var flutt á bráðadeild með litla meðvitund en jafnaði sig að endingu, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.

Skömmu fyrir klukkan tíu fór lögregla þá í útkall vegna umferðarslyss í miðborginni. Ekið hafði verið á gangandi vegfaranda sem hlaut minni háttar blæðingu á höfði og slasaðist einnig á fæti. Ökumaðurinn er grunaður um að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna.

Á tímabilinu frá klukkan ellefu í gærkvöldi til fimm í morgun fór lögreglan í alls fimmtán útköll vegna tilkynninga um hávaða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×