Erlent

Orrustuþotum og sprengjuvélum flogið yfir Taívansundi

Samúel Karl Ólason skrifar
Flugmenn orrustuþota í Taívan standa í ströngu þesssa dagana.
Flugmenn orrustuþota í Taívan standa í ströngu þesssa dagana. EPA

Bandarískum herflota var í dag siglt inn í Suður-Kínahaf með því markmiðið að tryggja frjálsar ferðir þar um. Á sama tíma er mikil spenna á Taívansundi eftir að Kínverjar sendu fjölda orrustuþota og sprengjuflugvéla inn á loftvarnasvæði eyríkisins í gær og í dag.

Flotinn bandaríski er leiddur af flugmóðurskipinu USS Theodore Roosevelt.

Kínverjar hafa gert ólöglegt tilkall til nánast alls Suður-Kínahafs. Þar hafa þeir byggt upp heilu eyjarnar, flugvelli og flotastöðvar og komið eldflaugum þar fyrir. Auk Kína gera Víetnam, Filippseyjar, Brúnei, Malasía, Indónesía og Taívan tilkall til svæðisins. Rík fiskimið eru í Suður-Kínahafi og talið er að þar sé einnig að finna auðlindir eins og olíu. Þar að auki liggja mikilvægar siglingaleiðir um svæðið.

Bandaríkin hafa haldið siglingum sínum um svæðið áfram í mótmælaskyni við tilkall Kína og til að tryggja frjálsar siglingar um svæðið. Ráðamenn í Kína hafa reglulega fordæmt þessar siglingar og sagt þær ógna friði á svæðinu.

Reuters fréttaveitan vitnar í tilkynningu frá Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna þar sem haft er eftir aðmírálnum Doug Verissimo að hann sé ánægður með að vera aftur í Suður-Kínahafi að „tryggja ferðafrelsi hafsins og hughreysta bandamenn og félaga“.

Ráðamenn í Bandaríkjunum ítrekuðu í dag að ríkið stæði við bakið á Taívan í deilum þeirra við Kína og í tilkynningu frá utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna segir að Bandaríkjamenn hafi áhyggjur af tilraunum Kínverja til að ógna nágrönnum þeirra í Taívan.

Varnarmálaráðuneyti Taívan tilkynnti nýverið að átta sprengjuvélum sem geta borið kjarnorkuvopn hefði verið flogið inn á loftvarnasvæði ríkisins og með þeim fjórar orrustuþotur. Sextán herþotum til viðbótar hefði verið flogið um sama svæði í dag.

Herþotur voru sendar til móts við kínversku þoturnar og loftvarnakerfi gangsett.

Kínverjar hafa verið að auka þrýstingin á Taívan með því markmiði að fá ráðamenn eyríkisins til að staðfesta yfirráð Kína yfir Taívan.

Kínverjar hafa lengi gert tilkall til Taívan sem hefur í raun verið sjálfstætt ríki frá árinu 1949. Þá flúðu meðlimir þjóðernissinna til eyjunnar undan kommúnistum í borgarastyrjöld landsins. Taívan hefur þó aldrei formlega lýst yfir sjálfstæði.

Bandaríkin slitu formlegum tengslum við Taívan árið 1979, að kröfu Kínverja, en hafa þrátt fyrir það haldið umfangsmiklum óformlegum tengslum við ríkið og útvega Taívan meðal annars vopn.

Á undanförnum árum hefur sjálfstæðissinnum vaxið ásmegin í Taívan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×