Innlent

Áfram hættustig á Siglufirði

Sylvía Hall skrifar
Myndir sem teknar voru á Siglufirði þegar sérsveit ríkislögreglustjóra á Norðurlandi flaug dróna yfir svæðið.
Myndir sem teknar voru á Siglufirði þegar sérsveit ríkislögreglustjóra á Norðurlandi flaug dróna yfir svæðið. Almannavarnir

Óvissustig verður áfram á öllu Norðurlandi og hættustig á Siglufirði vegna snjóflóðahættu. Afleitt verður hefur verið fyrir norðan í dag, hvöss norðanátt með snjókomu eða éljum.

Ákvörðun var tekin á miðvikudag um að rýma nokkur hús undir Strengsgiljum á Siglufirði á vegna snjóflóðahættu og stendur sú áfram. Húsin sem rýmd voru eru undir varnargarðinum Stóra-Bola, en mörg snjóflóð hafa fallið á hann frá því að hann var reistur rétt fyrir aldamót.

Rýmingin nú er varúðarráðstöfun sem tekur mið af bráðabirgðarýmingarkorti.

„Í janúar í fyrra féllu mjög stór snjóflóð á varnargarða ofan Flateyrar og fóru að hluta til yfir þá. Eftir það hefur verið unnið að endurskoðun á virkni leiðigarða á fleiri stöðum. Fyrstu niðurstöður fyrir Stóra-Bola undir Strengsgiljum gefa til kynna að ef mjög stór flóð falla á garðinn geti gefið yfir hann,“ segir í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Snjóflóðahætta viðvarandi næstu daga 

Snjóflóð féll í Héðinsfirði rétt fyrir klukkan þrjú í gærdag og náði kóf af flóðinu langt út á vatnið. Búist er við því að snjóflóðahætta verði viðvarandi næstu daga en veðurspá gerir ráð fyrir áframhaldandi norðan- og norðaustanáttum með skafrenningi og éljagangi fram yfir helgi.

Ekki hafa borist tilkynningar um snjóflóð þar það sem af er degi.

Þá er Siglufjarðarvegur ófær og óvissustig í gildi vegna snjóflóðahættu. Einnig er óvissustig af sömu sökum í Ljósavatnsskarði og Ólafsjarðarmúla og gæti vegurinn lokast með skömmum fyrirvara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×