Erlent

Biden þegar byrjaður að snúa við ákvörðunum Trumps

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Joe Biden skrifaði undir sínar fyrstu forsetatilskipanir í dag, strax á fyrsta degi í embætti. 
Joe Biden skrifaði undir sínar fyrstu forsetatilskipanir í dag, strax á fyrsta degi í embætti.  Getty/Chip Somodevilla

Joe Biden skrifaði undir sínar fyrstu forsetatilskipanir í dag, fljótlega eftir að hann steig í fyrsta sinn inn á skrifstofu forseta í Hvíta húsinu eftir að hafa tekið við embætti forseta. Hann sagði tilskipanirnar vera „djarfar“ og að þær snúist um að uppfylla loforð hans gagnvart Bandarísku þjóðinni.

Fyrsta tilskipunin sem hann undirritaði varðar grímuskyldu í byggingum alríkisstofnanna. Sú ákvörðun þykir táknræn fyrir vilja Biden til að taka kórónuveriufaraldurinn harðari tökum en forveri hans Donalds Trump gerði.

Alls skrifar Biden undir fimmtán forsetatilskipanir og tvær umboðsaðgerðir nú á sínum fyrsta degi í embætti, sem meðal annars fela í sér að hnekkja nokkrum af þeim ákvörðunum sem Donald Trump tók í sinni embættistíð. „Við munum þurfa að setja lög um marga hluti,“ sagði Biden við þá fréttamenn sem viðstaddir voru. Að grípa svo hratt til svo margra og veigamikilla aðgerða strax á fyrsta degi í embætti þykir fordæmalaust í sögunni að því er CNN greinir frá.

Meðal þeirra tilskipana sem Biden hefur skrifað undir má nefna ákvörðun um að hnekkja áformum Trump-stjórnarinnar um byggingu landamæraveggjar og um að horfið verði frá hertum landamærareglum sem beindust sérstaklega að múslimskum ríkjum sem settar voru í tíð Trump.

Þá hyggst Biden líka snúa við nokkrum af ákvörðunum Trump um að draga Bandaríkin úr hinu og þessu alþjóðasamstarfi, meðal annars úr Parísarsamkomulaginu og úrsögn úr Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×