Innlent

Mörg dæmi um Ís­lendinga í vand­ræðum á landa­mærum víða um heim

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir mælir ekki með því að fólk ferðis erlendis.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir mælir ekki með því að fólk ferðis erlendis. Júlíus Sigurjónsson

Almannavarnir og sóttvarnalæknir mæla ekki með því að fólk fari til útlanda nema brýna nauðsyn beri til. Yfirvöld hafa heyrt mörg dæmi um Íslendinga sem eru að lenda í vandræðum á landamærum erlendis þótt þeir séu til dæmis með vottorð sem sýnir neikvætt kórónuveirupróf.

Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag. Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, sagði stöðugt bætast í hóp þeirra landa sem krefjast neikvæðs kórónuveiruprófs af komufarþegum.

Prófið mætti ekki vera meira en 48 klukkustunda gamalt. Raunin væri sú að aðgengi að svona prófum er víða erfitt. Hefðu Íslendingar á ferðalögum erlendis lent í vandræðum vegna þessa.

„Á meðan þetta ástand er í gangi er ekki hægt að mæla með ferðalögum frá Íslandi nema brýna nauðsyn beri til,“ sagði Rögnvaldur og bað fólk því að hugsa sig vel og rækilega um áður en lagt yrði af stað.

Undir þessi orð tók Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, og beindi því til almennings að forðast að fara erlendis.

„Við erum að heyra um mjög marga sem eru að lenda í vandræðum víða á landamærum þótt þeir séu með vottorð. Það er algjörlega ljóst að mörg lönd eru að herða allverulega á sínum landamærum þannig að ég held að á meðan menn eru að læra á það kerfi þá ætti fólk að forðast ferðir erlendis, bæði til að forðast smit og til að lenda ekki í vandræðum á landamærum,“ sagði Þórólfur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×