Það var mikil spenna fyrir endurkomu Stellu Sigurðardóttur og Karenar Knútsdóttur, leikmanna Fram í fyrsta leik Olís deildar kvenna eftir að tímabilið var flautað aftur á.
Stella Sigurðardóttir er að koma til baka eftir að hafa lagt skónna á hilluna á tímabilinu 2013-2014 og Karen að koma aftur eftir barnsburð.
„Þetta er pínu blendið en það er mjög gaman sérstaklega af því að við unnum, það er gaman að geta spilað aftur saman,“ sögðu þær að leikslokum.
Þetta var fyrsti leikur Fram frá því að tímabilið var flautað af í lok september vegna Kórónuveirunnar og æfingar hafa farið fram með takmörkunum sem er heldur ólíkt því þær hafa vanist.
„Við erum búnar að vera að spila á æfingum alveg mikið en þetta er allt öðruvísi andrúmsloft að vera hérna í leik og í hasarnum.“
„Þetta var alveg smá stress í fyrri hálfleik að spila aftur handbolta fyrir okkur tvær en svo fann maður það líka á liðinu, það var langt síðan liðið hafi spilað leik þannig við þurftum fyrri hálfleik til að ná skrekknum úr okkur.“
Vegna takmarkanna er áhorfendabann á leikjunum út þennan mánuðinn en kom það að sök. „Ég gleymdi því aðeins. Það var búið að draga stúkuna út og auglýsingaborðar og stemnning í liðinu sem við bjuggum hana til sjálfar. Maður veit að aðstæðurnar eru svona og maður er ekkert að pæla í því,“ sagði Karen.
„Ég myndi segja að það sé mjög góð stemmning. Ég er reyndar að koma ný inn í þetta og ekki búin að vera lengi hérna að æfa en ógeðslega samheldur hópur og allar góðar vinkonur og það er stemning í liðinu. Við eigum eftir að spila vel saman og spila betur saman með hverjum leiknum,“ sagði Stella að lokum.