Bjarki Már fór mikinn í leiknum og skoraði tólf mörk, þar af níu í fyrri hálfleik, úr aðeins þrettán skotum.
Hann segir að íslenska liðið hafi borið virðingu fyrir andstæðingnum og leikið af fullum krafti allan tímann.
„Ef menn hefðu mætt til leiks með hálfum hug hefði þetta leyst upp í einhverja vitleysu. Þeir spila þannig handbolta, maður getur átt von á öllu. Leiðir skildu snemma og þetta var gríðarlega öflug frammistaða hjá liðinu,“ sagði Bjarki Már.
En fannst honum vera annað hugarfar í íslenska liðinu en gegn Portúgal í fyrradag?
„Ég veit það ekki, það er alltaf pressa í fyrsta leik. Það eru margir ungir leikmenn hjá okkur sem eru ekki komnir með það marga landsleiki. Þetta var hægt í gang en nú var stressið farið og menn spiluðu með minni þyngsli á öxlunum,“ sagði Bjarki Már.
Hann hefur skorað átján mörk í fyrstu tveimur leikjum Íslands á HM úr aðeins tuttugu skotum og nýtt öll ellefu vítaskotin sín. Hann er að vonum sáttur með hvernig hann hefur byrjað mótið.
„Algjörlega, ég er mjög ánægður með það og ætla mér að halda áfram á þessari braut,“ sagði Bjarki Már að lokum.