Til stóð að Pompeo myndi funda með Jean Asselborn, utanríkisráðherra Lúxemborgar, sem kallaði Trump nýverið „glæpamann“ og „pólitískan brennuvarg“ vegna ummæla hans í tengslum við forsetakosningarnar í nóvember og árásina á þinghúsið.
Hætt var við þann fund í kjölfar birtingar ummæla Asselborn.
Sjá einnig: Trump segist enga ábyrgð bera
Þá átti Pompeo að hitta embættismenn ESB í Brussel og samkvæmt utanríkisráðuneytinu var það til að ítreka djúp og góð samskipti Bandaríkjanna og Belgíu og stuðning Bandaríkjanna við Atlantshafsbandalagið, sem Trump hefur ítrekað gagnrýnt harðlega og hótað að yfirgefa.
Samkvæmt heimildum Reuters fréttaveitunnar neituðu evrópsku ráðamennirnir þó að funda með Pompeo, sem hefur sjálfur staðið við Trump varðandi ásakanir hans um að umfangsmikið samsæri og kosningasvindl hafi kostað hann sigur í forsetakosninunum og haldið því fram að Trump hafi í raun unnið kosningarnar.
Pompeo hætti einnig við kvöldverð með Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins sem átti að fara fram annað kvöld og fund með Sophie Wilmes, utanríkisráðherra Belgíu.
Ljóst er að hefðbundin bandalög Bandaríkjanna hafa beðið hnekki á undanförnum árum og það hefur hvergi verið bersýnilegra en varðandi málefni Írans og kjarnorkusamkomulagsins svokallaða.
New York Times segir starfsmenn utanríkisráðuneytis mjög áónægða með Pompeo og afstöðu hans varðandi kosningarnar og árásina á þinghúsið. Þeir eru einnig sagðir vera óánægðir með störf hans og aðgerðir undarnfarna daga.