Árásin átti sér stað þann 20. júní um klukkan sjö að staðartíma, en sjónarvottur lýsti því hvernig Saadallah gekk á milli hópa og reyndi að stinga fólk með stórum hníf. Á þessum tíma hafði nýlega verið slakað á samkomutakmörkunum og var því fjölmenni í garðinum.
Árásin var rannsökuð sem hryðjuverk og gaf Boris Johnson forsætisráðherra í skyn að grípa þyrfti til róttækra aðgerða gegn hryðjuverkum í kjölfar árásarinnar.
Dómari í málinu lýsti árásinni sem hrottafenginni og sagði fórnarlömbin ekki hafa átt möguleika á því að bregðast við árásinni, hvað þá að verja sig. Saadallah hefði að öllum líkindum skipulagt árásina lengi og hún hafi verið framin í því skyni að ýta undir pólitíska eða trúarlega hugmyndafræði.
Saadallah flutti til Bretlands frá Líbíu árið 2012 og sótti þar um hæli. Hann hafði ítrekað verið handtekinn fyrir ýmis brot samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins, þar á meðal árás og þjófnað.
Við rannsókn lögreglu fundust myndir sem bentu til stuðnings við hugmyndafræði Íslamska ríkisins (ISIS) og mátti finna myndir af fána samtakanna, sem og myndir af Jihadi John sem var einn þekktasti meðlimur þeirra.