Til stendur að selja hlut íslenska ríkisins í bankanum, þannig að meirihluti eða mögulega allir hlutir ríkisins í Íslandsbanka verði seldir á hlutabréfamarkaði.
Til að byrja með verður allt að 25 prósenta hluti ríkisins í bankanum seldur og hefur Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagt að ákjósanlegt væri að söluferlinu yrði lokið á fyrri helmingi ársins.
„Við viljum fara lengra og ég held að það sé mjög gott í þessu árferði þegar margir eiga um sárt að binda í kjölfar kórónuveirufaraldursins og það sér ekki fyrir endann á honum. Það sér ekki fyrir endann á afleiðingum faraldursins,“ sagði Sigríður í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
Hún segist vilja sjá að meðfram sölu á eignarhlut ríkisins í bankanum verði hluta þess dreift til almennings.
„Ég held að það gæti bæði styrkt stöðuna fyrir söluna og ég held að þetta verði í mörgu tilliti, frá margvíslegu sjónarhorni gott. Almenningur verður þarna virkur á hlutabréfamarkaði og hlutabréfamarkaðurinn fær á sama tíma innspýtingu,“ segir Sigríður.
Telur að gjöfin gæti leitt til meiri auðsöfnunar á færri höndum
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri Grænna, segist ósammála Sigríði. Hún segir ýmis lagaákvæði sem ráði gegn þessu og svo sé mörgum spurningum ósvarað um þessi mál.
„Ég held að við eigum fyrst og fremst að horfa á það að þeir sem hafi áhuga á því eigi að fjárfesta og við eigum að fá verð sem skiptir máli, líka fyrir þessi 25 prósent,“ segir Bjarkey.
„Ég hef áhyggjur af því að auðsöfnun gæti verið á enn færri höndum með þessu fyrirkomulagi,“ segir Bjarkey.
Hún bendir á það að ef 25 prósenta hlut í bankanum yrði skipt niður á alla Íslendinga hefði hver og einn engin áhrif og völd í umsýslu bankans.
Hægt er að hlusta á umræðuna í heild sinni í spilaranum hér að neðan.