Innlent

Víðir minnir á skólaskylduna

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Víðir Reynisson á fundinum í dag.
Víðir Reynisson á fundinum í dag. Mynd/Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, segir að stóra verkefnið næstkomandi mánudag, þegar slakanir á samkomubanninu taka gildi, sé að koma nemendum í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum aftur í skólann.

Þetta kom fram í máli Víðis á daglegum upplýsingafundi almannavarna í dag, sem snerist að nær öllu leyti um skólamál. 

Sagði Víðir að stærsta breytingin sem fylgdi þeim afléttingum á samkomubanninu á mánudaginn væru tengd skólunum, það er að segja að þeir opna á nýjan leik. Minnti Víðir á að öllum börnum á grunnskólaaldri væri skylt að sækja skóla, með öðrum orðum, það er skólaskylda í landinu.

„Það er mjög mikilvægt að allir foreldrar sem það mögulega geta komi börnum sínum í skólann strax frá upphafi þannig að sé hægt að hefja skólahald strax á mánudaginn með eins venjulegum hætti og mögulegt er,“ sagði Víðir.

Á þessu gætu þó auðvitað væri undantekningar en í þeim tilvikum væri mikilvægt fyrir grunnskólana að foreldrar létu þá sérstaklega vita af hverju barn gæti ekki mætt í skólann á mánudaginn eða einhverjar takmarkanir yrðu á því.

„Framtíðin liggur í unga fólkinu okkar,“ sagði Víðir í lok fundar og ítrekaði fyrri skilaboð um að mikilvægt væri að allir mættu í skólann á mánudaginn. „Þannig að við getum lokið skólanum á þessum skrýtnu tímum með eins eðlilegum hætti og hægt er.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×