Skoðun

Ný­sköpunar­mót opin­berra aðila og fyrir­tækja

Hildur Sif Arnardóttir skrifar

Aukin áhersla og áhugi er á nýsköpun innan opinbera geirans. Til þess að auka verðmætasköpun í samfélaginu og fara af krafti inn í fjórðu iðnbyltinguna þarf að ýta undir og styrkja nýsköpun af hendi hins opinbera. Ávinningur af samtali milli opinberra aðila og frumkvöðlafyrirtækja við þróun á lausnum getur verið gríðarlegur, bæði fyrir frumkvöðulinn og ekki síst fyrir samfélagið.

Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Ríkiskaup og fjármála- og efnahagsráðuneytið stóðu fyrir svokölluðu Nýsköpunarmóti opinberra aðila og fyrirtækja á síðasta ári. Markmiðið með mótinu var að auka enn frekar nýsköpun í opinberum rekstri og koma á samtali milli opinberra stofnana og fyrirtækja.

Hvernig virkar Nýsköpunarmót?

Rúmlega hundrað manns mættu á Nýsköpunarmótið þar sem samtals 230 örfundir fóru fram. Hver fundur nýsköpunarfyrirtækis og opinberrar stofnunar stóð yfir í 15 mínútur. Alls 26 opinberar stofnanir tóku þátt í mótinu, þar á meðal Landspítalinn, Landhelgisgæslan, Byggðastofnun og Lögreglan. Sum fyrirtæki nýttu einnig tækifærið og hittu önnur fyrirtæki með hugsanlegt samstarf í huga. Svokallað pörunarform (e. match making) var notað til að koma fundunum á, en þá skrá þátttakendur prófíl sinn eða lýsingu á vefsvæði og bóka í kjölfarið fundi með aðilum sem vekja áhuga. Einstaklega góð stemming var á mótinu að mati allra sem að því komu.

Nýtt á þessu ári

Í framhaldi af Nýsköpunarmótinu hefur verkefnum verið fylgt skipulega eftir og meðal annars kannað hvort frekara samtal hafi átt sér stað milli aðila. Ríkiskaup sér um að leiðbeina opinberum aðilum varðandi samninga og viðmiðunarupphæðir. Vonast er til þess að sem flest árangursrík verkefni verði til í kjölfar funda á mótinu enda mun það styrkja bæði nýsköpunarfyrirtæki og opinberar stofnanir. Nýsköpunarmót verður haldið að nýju á þessu ári.

Höfundur er verkefnastjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Þessi grein er hluti af ritröðinni Nýsköpun og rannsóknir sem varpar ljósi á fjölbreyttar vísindarannsóknir og nýsköpunarstarf sem unnið er að hérlendis. Greinarnar eru skrifaðar af starfsmönnum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og eru úr ársskýrslu miðstöðvarinnar. Nánari upplýsingar um Nýsköpunarmiðstöð Íslands eru á www.nmi.is.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×