Innlent

Bjóðast til að malbika í Grafningi fyrir 80% af áætluðum kostnaði

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá kaflanum á Grafningsvegi neðri. Þar endar malbikið núna við Hlíðará vestan Bíldsfells en úr því á að bæta í sumar.
Frá kaflanum á Grafningsvegi neðri. Þar endar malbikið núna við Hlíðará vestan Bíldsfells en úr því á að bæta í sumar. Stöð 2/Einar Árnason.

Lægsta boð í endurbyggingu og lagningu bundins slitlags á fimm kílómetra vegarkafla í Grafningi reyndist 80,4 prósent af áætluðum verktakakostnaði. Þetta var eitt þriggja útboða sem opnuð voru hjá Vegagerðinni í dag.

Kaflinn er á Grafningsvegi neðri sunnan Úlfljótsvatns, milli Hlíðarár og Grafningsvegar efri. Verkið skal allt vinnast í sumar og á því að vera að fullu lokið fyrir 1. september, samkvæmt útboðslýsingu.

Lægsta tilboð af þremur, sem bárust, átti Vörubifreiðstjórafélagið Mjölnir á Selfossi, 85,5 milljónir króna, sem var 20,9 milljónum króna undir áætluðum verktakakostnaði upp á 106,4 milljónir króna. Næstlægsta boð átti Suðurtak ehf. á Brjánsstöðum, 108 milljónir króna.

Suðurtak hefur undanfarin tvö ár annast uppbyggingu á tveimur samtals ellefu kílómetra köflum Grafningsvegar milli Nesjavalla og Úlfljótsvatns, sem Stöð 2 fjallaði um í fyrrasumar:

Sjá einnig hér: Bundið slitlag kemur sunnan Þingvallavatns

Vegagerðin fékk einnig tilboð vel undir kostnaðaráætlun í endurbyggingu og lagningu slitlags á 1,6 kílómetra kafla í Andakíl, milli Borgarfjarðarbrautar og Hreppslaugar á Mófellsstaðavegi. Verkinu skal að fullu lokið eigi síðar en 15. september í haust en hluti af verkinu er reiðvegur.

Það bárust þó aðeins tvö tilboð. Það lægra átti Þróttur ehf. á Akranesi, 38,6 milljónir króna, sem var 84 prósent af 45,8 milljóna króna áætluðum verktakakostnaði. Borgarverk í Borgarnesi átti hærra boðið, 48,9 milljónir króna.

Þriðja og stærsta útboðið, sem opnað var í dag, er gerð hringtorgs og undirganga við Suðurhóla á Selfossi, á Eyrarbakkavegi. Tvö tilboð bárust, bæði yfir kostnaðaráætlun. Það lægra átti Berg Verktakar ehf. í Reykjavík 181,8 milljónir króna, sem reyndist 111 prósent af áætluðum verktakakostnaði upp á 163 milljónir króna. Hærra boðið átti Borgarverk ehf., 239 milljónir króna, eða 147 prósent af kostnaðaráætlun.

Verkið er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Sveitarfélagsins Árborgar og veitufyrirtækja. Í því felst einnig gerð stíga og tenginga við ný undirgöng og færsla og endurnýjun á vatnsveitu-, hitaveitu-, raf-, og fjarskiptalögnum. Verkinu skal að fullu lokið 1. nóvember í ár.


Tengdar fréttir

Verktakar bitust hart um fyrstu flýtiverkin

Lægstu tilboð voru vel undir áætluðum verktakakostnaði í sex útboðsopnunum af átta hjá Vegagerðinni í gær, eða á bilinu 75-90 prósent af áætlun. Í tveimur opnunum reyndust lægstu boð yfir kostnaðaráætlun.

Malbikið lengist í Grafningi í sumar

Vegagerðin hefur boðið út endurbyggingu fimm kílómetra langs kafla í Grafningi sunnan Úlfljótsvatns, milli Hlíðarár og Grafningsvegar efri. Vegarkaflinn verður byggður upp og lagður bundnu slitlagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×