Erlent

Evrópuríki undirbúa afnám takmarkana vegna faraldursins

Andri Eysteinsson skrifar
Forsætisráðherrar Frakklands (V) og Spánar á fundi í október 2018.
Forsætisráðherrar Frakklands (V) og Spánar á fundi í október 2018. Getty/Anadolu

Yfirvöld í Evrópuríkjum eru farin að huga að afnámi hinna ýmsu takmarkana sem samfélögum hefur verið sett vegna faraldurs kórónuveirunnar undanfarna mánuði.

Hægst hefur á faraldrinum víða um Evrópu þó sums staðar sé enn langt í land. Yfirvöld á Spáni og í Frakklandi eru farin að huga að næstu skrefum. Reuters greinir frá.

Forsætisráðherra Frakklands, Edouard Philippe hefur tilkynnt að næsta þriðjudag verði áform ríkisstjórnar hans um að aflétta takmarkanir kynntar franska þinginu og atkvæði greidd í kjölfarið. Útgöngubann hefur verið í gildi í Frakklandi síðan 17. mars síðastliðinn og er áætlað að því verði hætt 11. maí. Útgöngubannið var sett af frumkvæði forsetans Emmanuel Macron.

Talið er að í fyrstu aðgerðum verði skólar og verslanir opnaðar að nýju. Alls hafa 22.614 látið lífið vegna veirunnar í Frakklandi en um 159 þúsund hafa smitast.

Spánverjar hafa tilkynnt að frá og með 2. maí verði fólki leyft að fara út að hreyfa sig haldi áfram sem horfir og nýjum tilfellum veirunnar heldur áfram að fækka.

Forsætisráðherrann Pedro Sanchez sagði í ávarpi til þjóðarinnar að fólki yrði hleypt úr húsi til að stunda líkamsrækt utandyra eða til þess að fara út að ganga ásamt sambýlingum. Útgöngubanni var komið á 14. mars á Spáni og hefur Spánverjum eingöngu verið leyfilegt að fara út til þess að sækja allar helstu nauðsynjar.

Alls hafa yfir 223 þúsund Spánverjar greinst með Covid-19 sýkingu og 23 þúsund þeirra hafa látist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×