UEFA hefur nú frestað öllum landsleikjum í júní og öllum leikjum í Evrópukeppnum um óákveðinn tíma. Þetta kom fram í tilkynningu frá UEFA fyrir skömmu en leikur Íslands og Rúmeníu mun þá ekki fara fram í júní eins og vonir stóðu til.
Þetta var ákveðið á fundi framkvæmdastjórnar UEFA í dag, miðvikudaginn 1. apríl, í kjölfar fundar með framkvæmdastjórum allra aðildarlanda UEFA og að fengnum tillögum frá sérstökum starfshópum UEFA.
Eins og Vísir greindi frá fyrr í dag fjölluðu erlendir miðlar að von var á tilkynningu frá UEFA varðandi landsleikina. Mörgum landsliðsverkefnum hefur verið aflýst, þar á meðal umspili fyrir EM 2020 og leikjum A landsliðs kvenna í undankeppni EM.
Öllum júní-landsleikjum frestað https://t.co/6rQvVDjw41
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) April 1, 2020
Í tilkynningunni segir að ekki séu komnar nýjar dagsetningar á leikina. Meistara- og Evrópudeildin hefur einnig verið sett á pásu þangað til annað kemur í ljós en fróðlegt verður að sjá hvenær UEFA ætlar að klára þær keppnir og hvernig. Báðar keppnir voru komnar fram í 8-liða úrslitin.
Á heimasíðu KSÍ birtist yfirlit um fleiri ákvarðanir sem voru teknar á fundinum.
Á meðal annarra ákvarðana á fundinum:
* Úrslitakeppni EM U17 karla, sem fara átti fram í maí 2020, hefur verið aflýst.
* Úrslitakeppni EM U19 kvenna, sem fara átti fram í júlí 2020, hefur verið aflýst.
* Úrslitakeppni EM U17 kvenna, sem fara átti fram í maí 2020, hefur verið frestað um óákveðinn tíma (gildir sem undankeppni fyrir HM U17 kvenna).
* Úrslitakeppni EM U19 karla, sem fara átti fram í júlí 2020, hefur verið frestað um óákveðinn tíma (gildir sem undankeppni fyrir HM U19 karla).