Tveir hafa verið fluttir með þyrlu landhelgisgæslunnar á sjúkrahús eftir vélsleðaslys við Veiðivötn á Suðurlandi. Ekki er talið að fólkið sé alvarlega slasað. Þetta segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar í samtali við fréttastofu.
Tilkynning barst um slysið um þrjú í dag og var þyrla landhelgisgæslunnar, TF-GRO, send á vettvang auk björgunarsveita og lögreglunnar á Hvolsvelli.
Í samtali við Vísi í dag sagði Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, að hópar björgunarsveitamanna hafi farið á vettvang en með þeim í för voru sjúkraflutningamenn af Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Mikill snjór er á svæðinu og var aðkoman því erfið.
Talið var í fyrstu að aðeins einn hafi slasast en tveir voru fluttir með þyrlunni til Reykjavíkur. Ekki er vitað hvers eðlis meiðsli fólksins eru að svo stöddu.
Fréttin hefur verið uppfærð. Talið var í fyrstu að áverkar mannsins væru alvarlegir en svo reyndist ekki vera.