Eliza Reid forsetafrú greinir frá því á Instagram að fjölskyldan hafi pantað mat frá veitingastaðnum Skál í gærkvöldi. Hún segir myndirnar sem hún tók af matnum ekki lýsa gæðum hans nógu vel. Þess í stað birtir hún mynd af kvöldverki sínu, púsli með mynd af Íslandi, og rauðvínsglasi sem hún upplýsir að hún hafi fengið sent heim að dyrum.
We ordered delivery from @skal_rvk last night but my food photos don’t do it justice so I’ll instead just post from the post-dinner activities and the delicious glass of natural wine (also delivered!)
Veitingamenn berjast nú margir hverjir fyrir því að fá að selja léttvín með mat í ljósi breyttra aðstæðna. Veitingahús hafa ýmist lokað vegna kórónuveirunnar eða reyna að halda lífi í starfseminni með heimsendingum. Vísir fjallaði um málið í gær.
Krefjast veitingamenn á borð við Hrefnu Sætran, Jakob Jakobsson á Jómfrúnni og Ólaf Örn Ólafsson að frumvarp dómsmálaráðherra sem myndi heimila netverslun með áfengi fái flýtimeðferð og samþykkt í ljósi aðstæðna sem uppi eru í samfélaginu.
Má gefa en ekki selja
Fylgjendur Elizu Reid á Instagram ráku augu í að hún hefði fengið vín sent heim, eins og hún orðaði það. En hvernig má það vera í ljósi þess að sala á víni er ekki leyfileg í heimsendingu?
Gísli Matthías Auðunsson, einn eigenda Skál á Hlemmi Mathöll, átti auðvelt með að svara þeirri spurningu.
„Hún pantaði mat og við ákváðum að gefa henni vínflösku með. Það má ekki selja vín en það má gefa það,“ segir Gísli Matthías.

Eliza segir að um náttúruvín hafi verið að ræða sem Gísli Matthías staðfestir, enda fókusi staðurinn á þá týpu vína.
Væri svakalegur sigur að koma út á núlli
Gísli Matthías er mikill talsmaður þess að frumvarp dómsmálaráðherra verði keyrt í gegn.
„Fullt af veitingastöðum eru með margar milljónir í vínlager og ná ekki að selja,“ segir Gísli Matthías. Reksturinn sé sérstaklega erfiður þessa dagana. Heimsendingar gangi ágætlega en ekki sé hægt að bera tölurnar í rekstrinum saman við rekstur í venjulegri tíð.
„Okkar markmið er að þurfa ekki að láta neinn fara,“ segir Gísli. Tólf manns starfa hjá Skál.
„Við reynum að sigla í gegnum þetta eins vel og mögulegt er. Ef við komum út á núlli þá væri það svakalegur sigur.“
Forseti Íslands þarf að skrá hjá sér allar gjafir í embætti svo reikna má með því að ein vínflaska hafi bæst á listann í gær.