Skoðun

Eru barna­réttinda­gler­augun við hendina?

Bergsteinn Jónsson skrifar

Það sem einkennir helst krísur er nauðsyn þess að forgangsraða þeim björgum sem til staðar eru. Viðbrögð íslenskra stjórnvalda hafa notið stuðnings hingað til, en það er ómetanlegt þegar almenningur ber slíkt traust til yfirvalda. En framundan er langhlaup þar sem vinna verður úr hverjum áhrifum heimsfaraldursins á fætur öðrum. Það verður flókið verkefni og mun reyna á dug og seiglu okkar allra.

Í þeim svörum sem samfélagið mun finna við áföllunum, verður að huga sérstaklega að yngstu kynslóðunum. Þeim virðist ekki stafa hætta af veirunni, en munu svo sannarlega finna fyrir áhrifum viðbragðanna við henni. UNICEF hefur nú þegar bent stjórnvöldum heimsins á áhrifin sem faraldurinn hefur á jaðarsettustu börn þessa heims. Henrietta Fore, framkvæmdastjóri UNICEF, segir heimsfaraldurinn kalla á stuðning við þær milljónir barna á flótta, og barna sem búa við mikla neyð, sem aldrei fyrr.

UNICEF hefur jafnframt gefið út leiðbeiningar til stjórnvalda um vernd barna fyrir þeim hættum sem að þeim steðjar við þessar aðstæður. Til viðbótar við að skólar og ýmis þjónusta fyrir börn liggur niðri eða er í lágmarki, eru börn nú í aðstæðum sem gerir þau viðkvæmari fyrir hvers kyns ofbeldi, misnotkun og félagslegri einangrun. Og dæmin sýna að ofbeldi og misnotkun gegn börnum eykst við þessar aðstæður, þegar álag er á heimilum og efnahagsleg staða fjölskyldna versnar.

Það hefur því sjaldnar verið mikilvægara að setja börn í forgang í áætlunum stjórnvalda, en einmitt nú þegar börn búa við skerta opnun leik-, grunn-, og framhaldsskóla og færri tækifæri til að hitta vini og ættingja. Minnug þess að hér á landi hefur 16 prósent barna orðið fyrir ofbeldi eða orðið vitni að ofbeldi á heimilum sínum fyrir 18 ára aldur, samkvæmt tölfræði um ofbeldi gegn börnum sem UNICEF á Íslandi gaf út á síðasta ári.

Sem betur fer býr stærstur hluti barna á Íslandi við góðar aðstæður og margar fjölskyldur munu njóta aukinnar samveru næstu vikur. Verkefni stjórnvalda er þess vegna að líta til jaðarsettustu barna samfélagsins, barna sem búa við ofbeldi, barna sem búa á efnaminni heimilum, barna sem eiga fáa að og barna á flótta. Nú þurfa stjórnvöld að finna til barnaréttindagleraugun og setja það sem börnum er fyrir bestu í forgang.

Höfundur er framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×