Þegar nær allar íþróttafréttir eru litaðar á einn eða annan hátt af kórónuveirunni er gaman að rifja upp skemmtileg tilþrif. Að þessu sinni er það mark fyrrverandi landsliðsmannsins Atla Hilmarssonar.
Atli lék á sínum tíma 134 landsleiki og skoraði í þeim 391 mark. Þá lék hann sem atvinnumaður á Spáni og í Þýskalandi um árabil.
Á Twitter-síðu Partidos Históricos de Balonmano er fjallað um sögu handboltans á Spáni. Þar er rifjað upp einkar glæsilegt mark Atla frá því hann lék með Granollers þann 27. janúar árið 1990.
Markið skoraði hann gegn Club Deportivo Cajamadrid og hægt er að sjá það hér að neðan. Rúnar Sigtryggsson, núverandi þjálfari Stjörnunnar í Olís deild karla, talar um „rosalega kringlu“ og má vel taka undir þau orð.
Meistari Atli Hilmars með líka þessa rosalegu kringlu https://t.co/vniZWCI5QC
— Rúnar Sigtryggsson (@RunarSigtryggs) March 22, 2020