Innlent

Herða reglur um sam­komu­bann í Eyjum: Að há­marki tíu saman á hverjum stað

Atli Ísleifsson skrifar

Aðgerðastjórn almannavarna hafa hert reglur um samkomubann í Vestmannaeyjum. Allir viðburðir þar sem tíu eða fleiri koma saman eru nú bannaðir.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem birtist á Facebook-síðu slökkviliðsins í Vestmannaeyjum, en reglurnar taka gildi í dag klukkan 18. Staðfest smit kórónuveirunnar í Vestmannaeyjum eru nú orðin 11 hið minnsta og eru að minnsta kosti 282 Eyjamenn í sóttkví, að því er fram kom í frétt Vísis í gærkvöldi.

Hvers kyns viðburðir bannaðir

Í tilkynningunni segir að samkomubann í Vestmannaeyjum feli í sér að ráðstefnur, málþing, fundir, skemmtanir svo sem tónleikar, leiksýningar, bíósýningar, íþróttaviðburðir og einkasamkvæmi eru nú bannaðar.

Sömu sögu er að segja af kirkjuathöfnum hvers konar, svo sem vegna útfara, giftinga, ferminga og annarra trúarsamkoma.

Frekari tilkynningar að vænta

„Aðra sambærilega viðburði með 10 einstaklingum eða fleiri. Enn fremur skal tryggt á öllum vinnustöðum og í allri starfsemi að ekki séu á sama tíma fleiri en 10 einstaklingar inni í sama rými, s.s. á veitingastöðum, mötuneytum, kaffihúsum og verslunum.

Aðgangur almennings að íþróttamannvirkjum, líkamsræktarstöðvum, skemmtistöðum, spilasölum, spilakössum og söfnum.

Starfsemi þar sem nálægð er mikil er bönnuð s.s. hárgreiðslustofur, snyrtistofur, nuddstofur og önnur slík starfsemi.

Sjúkraþjálfun nema þegar um mikilvæga endurhæfingar er að ræða og er slíkt þá heimilt með skilyrðum um öflugar sóttvarnaráðstafanir

Íþróttastarf barna og fullorðinna þar sem nálægð er minni en tveir metrar og einhver sameiginleg notkun á búnaði er fyrir hendi,“ segir í tilkynningunni, en aðgerðirnar eru gerðar í samráði við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og sóttvarnalækni. Frekari tilkynningar verði sendar út síðar í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×