Jarðskjálftahrina hófst við Krýsuvík um klukkan hálf níu í gærkvöldi. Um miðnætti höfðu mælst um 60 skjálftar á þessu svæði. Stærsti skjálftinn varð klukkan 21:21, þrír að stærð. Engar tilkynningar hafa borist um að hann hafi fundist. Hrinan virðist nú vera í rénun. Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands.
Niðurstöður jarðskorpumælinga við Þorbjörn sýna að þensla sem veldur landrisi er hafin að nýju. Landrisið er nú hægara en það sem mældist í lok janúar en virðist eiga upptök á svipuðum slóðum. Líklegasta skýringin er að kvikusöfnun hafi tekið sig upp að nýju.
Óvissustig vegna landriss er í gildi hjá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.