Borislav Stankovic, fyrrum yfirmaður Alþjóða körfuboltasambandsins í marga áratugi og risastór goðsögn í körfubolta, er allur.
Borislav Stankovic lést á heimili sínu í Serbíu í dag en hann var 94 ára gamall. Stankovic fæddist 9. júlí 1925.
It is with profound sadness that FIBA confirmed the passing of FIBA Secretary General Emeritus Borislav Stankovic. He was 94 years old.https://t.co/IHyMkORYcX
— FIBA media (@FIBA_media) March 20, 2020
Stankovic var yfirmaður FIBA frá 1976 þar til 1. janúar 2003 og hafði verið heiðurformaður sambandsins síðan þá. Hann hafðu áður verið farsæll leikmaður og spilaði meðal annars á fyrsta heimsmeistaramótinu árið 1950.
Borislav Stankovic afrekaði mikið á þeim 26 árum sem hann var yfirmaður körfuboltans í heiminum en verður líklega mest minnst fyrir það hafa opnað dyrnar fyrir NBA-leikmenn inn á Ólympíuleikanna í lok níunda áratugsins.
Stankovic og David Stern unnu saman að því að tengja FIBA og NBA deildina og samvinna þeirra skilaði því að NBA leikmenn fengu í fyrsta sinn að keppa á Ólympíuleikunum í Barcelona 1992.
Draumalið Bandaríkjamanna sló í gegn á leikunum í Barcelona 1992 og körfuboltinn tók í framhaldinu risastökk á heimsvísu.
Nú hafa þeir Borislav Stankovic og David Stern báðir hvatt heiminn á stuttum tíma því David Stern lést 1. janúar síðastliðinn.
Borislav Stankovic var tekinn inn í heiðurshöll körfuboltans árið 1991 og inn í heiðurshöll FIBA árið 2007. Hann hafði líka verið meðlimur í Alþjóðaólympíunefndinni.