Innlent

Hafa áhyggjur af fólkinu í neyðarskýlunum

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Gistiskýlið á Lindargötu.
Gistiskýlið á Lindargötu. Stöð 2

Deildarstjóri hjá veðferðarsviði Reykjavíkurborgar hefur miklar áhyggjur af húsnæðislausu fólki sem nýtir neyðarskýli borgarinnar, vegna kórónuveirunnar. Sjö manns eru skilgreindir íáhættuhópi og er hluti hópsins langveikt fólk með alvarlegan vímuefnavanda.

Rúmlega þrjátíu manns, sem eru húsnæðislausir, nýta neyðarskýlin sem starfrækt eru í Reykjavík. Um er að ræða gistiskýlið á Lindargötu, Konukot og neyðarskýlið úti á Granda fyrir unga karlmenn.

Vegna kórónuveirunnar verður opið allan sólarhringinn í Konukoti og gistiskýlinu á Lindargötu fyrir þá sem eru í áhættuhópi en venjulega er lokað á milli tíu og fimm á daginn.

„Eins og staðan er núna erum við með sjö manns á Lindargötu sem eru í áhættuhóp og fjórir af þeim eru með miklar hjúkrunarþarfir og eru langveikir,“ segir Hrafnhildur Ólafsdóttir, deildarstjóri á velferðarsviði Reykjavíkurborgar.

Hún segist hafa miklar áhyggjur af þessum hópi sem er einnig með alvarlegan vímuefnavanda. Þeir hafi hingað til ekki fengið húsnæði með hjúkrunarþjónustu sem hentar þeirra þörfum, en ef þeir sýkist af veirunni sé gríðarlega mikilvægt að þeir fái innlögn á sjúkrastofnun með skaðaminnkandi þjónustu.

Þá séu einangrunarherbergi að verða klár fyrir aðra sem gætu smitast og hjúkrunarfræðingur í skýlinu meti aðstæður frá degi til dags.

Enginn er skilgreindur í áhættuhópi í neyðarskýlinu úti á Granda þar sem tólf til fimmtán manns dvelja hverja nótt. Unnið er að því að finna nýtt húsnæði ef upp kemur smit.

Í konukoti eru tvær til þrjár konur taldar vera í áhættuhópi en staðan er endurmetin daglega. „Við óskuðum efir aukafjármagni, þannig að þær gætu haft sólarhrings opnun líka," segir Hrafnhildur og bætir við að starfsmenn hvetji nú fólkið til að halda sig að mestu innandyra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×