Fótbolti

Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar færður til 27. júní og ekkert Copa í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Meistaradeildarbikarinn fer ekki á loft fyrr en í lok júní.
Meistaradeildarbikarinn fer ekki á loft fyrr en í lok júní. Vísir/Getty

Knattspyrnusamband Evrópu frestaði EM karla í fótbolta um eitt ár fyrr í dag og hefur nú líklega fært úrslitaleiki Evrópukeppnanna aftur um einn mánuð. Erlendir miðlar greina frá þessu en það hefur ekki komið formleg staðfesting frá UEFA.

Evrópska sambandið ætlar að gera allt til þess að klára Evrópukeppninnar í ár og lykilatriði í því var að færa Evrópukeppni landsliða af komandi sumri. Með því skapaðist meira svigrúm til að spila síðustu leikina í Evrópukeppnum félagsliða.

Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar 2020 sem fer fram á Atatürk Ólympíuleikvanginum í Istanbul í Tyrklandi hefur nú verið settur á 27. júní næstkomandi samkvæmt heimildum erlendra miðla en hann átti að fara fram 30. maí.

Úrslitaleikur Evrópudeildarinnar hefur jafnframt verið færður til 24. júní og fer því fram þremur dögum á undan úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Úrslitaleikur Evrópudeildarinnar átti að fara fram 27. maí en hann verður spilaður á Stadion Energa Gdańsk leikvanginum í Gdańsk í Póllandi.

Vinnuhópar hafa einnig verið settir saman til að vinna að því að skipuleggja alla leiki á næstunni og hvernig sé besta að stilla upp deildarkeppnunum í tengslum við leiki í Evrópukeppnum.

Knattspyrnusamband Suður-Ameríku hefur einnig ákveðið að Suðurameríkukeppnin, Copa America, sem átti að fara fram í sumar, fari ekki fram fyrr en á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×