Nýársnótt er jafnan annasöm á bráðamóttöku Landspítalans en um þrjátíu manns standa vaktina þar í nótt.
„Fólk er bæði að leita til okkar vegna flugeldaslysa og líka vegna almennra afleiðinga skemmtana. Það er töluvert um komur í tengslum við ölvun á nýársnótt. Flugeldaslysin hafa verið tíu til tuttugu á ári undanfarin ár. Þar af hafa verið eitt til tvö alvarleg slys. Mest eru þetta einfaldir brunar á fingrum og höndum en það eru því miður enn þá alvarleg slys. Augnslys og slys sem krefjast innlagna og aðgerða,“ segir Jón Magnús Kristjánsson yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi.
Búist er við talsverðri svifryksmengun á höfuðborgarsvæðinu ef veðurspár ganga eftir og hefur þeim sem eru viðkvæmir fyrir verið ráðlagt að halda sig sem mest innandyra.
„Við sáum það sérstaklega fyrir þremur árum síðan þegar það var mjög stillt og gott veður á gamlárskvöld að það komu til okkar í kringum tólf einstaklingar yfir nóttina með mæði og versnun á öndunarfæraeinkennum sem að við teljum að megi rekja, að minnsta kosti að hluta til, til svifryks. Þannig að við höfum áhyggjur af því ef það verður mjög stillt veður í kvöld að það verði einstaklingar sem þurfa að leita til okkar út af þessu,“ segir Jón Magnús.