Lífið

Skoska fyrirsætan Stella Tennant látin

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stella Tennant á lokahátíð Ólympíuleikanna í London árið 2012.
Stella Tennant á lokahátíð Ólympíuleikanna í London árið 2012. Getty/Scott Heavey

Skoska fyrirsætan Stella Tennant er látin fimmtug að aldri. Fjölskylda hennar staðfestir andlátið í tilkynningu. „Stella var yndisleg kona og mikill innblástur fyrir okkur öll. Hennar verður sárt saknað,“ segir í tilkynningunni. Hún hafi látist í gær og andlát hennar borið brátt að.

Fulltrúi lögreglu segir í samtali við BBC að enginn grunur sé á að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað. Fyrirsætan fagnaði fimmtíu ára afmæli á dögunum.

Tennant skaust fram á sjónarsviðið snemma á tíunda áratugnum og birtust myndir af henni í tímaritum á borð við Vogue og Harper's Bazaar. Þá var hún áberandi í auglýsingum fyrir vörumerki á borð við Calvin Klein, Chanel, Jean Paul Gautier og Burberry.

Þá var Tennant hluti af lokahátíð Ólympíuleikanna í London þar sem hún var í sviðsljósinu ásamt fyrirsætunum Kate Moss og Naomi Campbell.

Tennant lét sig umhverfismál varða og sömuleiðis sjálfbærni í fatahönnun. Tennant var gift franska ljósmyndaranum David Lasnet í 21. ár. Þau eignuðust fjögur börn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×