Innlent

Veittist að starfsmönnum verslunar í Vesturbæ

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti ýmsum verkefnum í gærkvöldi og nótt.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti ýmsum verkefnum í gærkvöldi og nótt. Vísir/Vilhelm

Klukkan 19:43 í gærkvöldi barst lögreglu beiðni um aðstoð frá starfsmönnum í verslun í Vesturbæ Reykjavíkur.

Að því er segir í dagbók lögreglu var þar ölvaður og æstur maður sem hafði veist að starfsmönnum verslunarinnar. Lögregla kom á vettvang og handtók manninn sem hafði einnig stolið vörum úr versluninni. Hann var vistaður í fangaklefa.

Um einum og hálfum tíma síðar var tilkynnt um mann sem skemmdi hraðbanka í miðbæ Reykjavíkur. Lögregla handtók hann skammt frá vettvangi en í dagbók lögreglu kemur fram að fyrr um daginn hafði lögregla haft afskipti af manninum. Maðurinn var vistaður í fangaklefa sökum ástands.

Klukkan í hálfþrjú í nótt voru síðan lögregla og sjúkrabíll send vegna slyss í miðbænum þar sem manneskja hafði dottið af rafmagnshlaupahjóli.

Upp úr klukkan fjögur tilkynnti íbúi í hverfi 108 í Reykjavík um mann sem hefði reynt að brjótast inn um glugga.

Hafði maðurinn hlaupið á brott og húsráðandi á eftir en misst af honum. Maðurinn sem reyndi að brjótast inn hafði haft í hótunum við húsráðanda en lögregla fann manninn ekki þrátt fyrir leit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×