„Hér hefur verið stöðugt streymi, við opnuðum klukkan átta í morgun og svona upp úr níu fór maður að sjá að fólk var farið að týnast verulega inn. Í hádeginu komu þó nokkrir í mat, við vorum með mat frá hálf eitt og það voru margir sem nýttu sér það. Ég myndi segja að hér hafi örugglega verið svona á milli þrjú- og fjögur hundruð manns sem eru búin að koma hingað á einhverjum tímapunkti í dag,“ segir Margrét Dögg Guðgeirsdóttir Hjarðar, sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum, í samtali við fréttastofu.
Fjöldahjálparstöðin verður áfram opin á morgun en þá verður staðan endurmetin. Hún segir að Rauði krossinn verði þó áfram til staðar eins og þarf. Mikil óvissa ríki enn meðal Seyðfirðinga.
„Fólki líður upp og ofan. Þetta er heilmikil óvissa. Fólk veit ekki alveg stöðuna á sínum heimilum eða sínum eigum þannig að menn vita ekki alveg hvert framhaldið er, það er líka bara erfitt,“ segir Margrét.
Erfitt fyrir fólk að vita ekki hvort það geti haldið jólin heima
Hún segir stöðuna sérstaklega erfiða svona í aðdraganda jóla. Fólk viti ekki hvar það fái að vera um jólin, hvort það fái að fara heim til sín eða þurfi að vera annars staðar.
„Þetta er sérstaklega erfitt í aðdraganda jóla. Að vita ekki hvort menn geta farið heim til sín eða hvernig ástandið er. Við erum búin að finna gríðarlegan samhug í fólki hér á svæðinu og alls staðar af landinu,“ segir Margrét.

Allir Seyðfirðingar fengu svefnstað í gærnótt, fólk fékk rúmpláss á hótelum, gistihúsum og í heimahúsum.
„Það voru alls staðar rúm í boði fyrir fólk að sofa í. Enginn þurfti að vera hér í fjöldahjálparstöðinni. Við erum bara komin með lista yfir staði þar sem fólk er búið að bjóða híbýli. Þar sem fólk getur komið sér fyrir á næstu dögum ef það þarf að vera annars staðar en heima hjá sér á jólunum,“ segir Margrét.
„Maður er bara klökkur“
Fjöldi fólks hefur boðið Seyðfirðingum húsnæði til að gista í og margir hafa boðist til að lána íbúðir sínar og hús yfir jólin.
„Ég held að fólk hafi aðallega tekið það upp hjá sjálfu sér að láta vita að það hafi íbúðir í boði og hús. Einhverjir fara í burtu af staðnum yfir jólin, þeir hafa látið lyklana sína í hendurnar á okkur og fólk fær að vera þar eins og það vill. Ég held að það séu margir sem gerðu þetta af fyrra bragði og margir hringdu til að bjóða ef að kæmu á eftir, seinna, einhverjir sem vantaði gistingu,“ segir Berglind Sveinsdóttir, formaður Múlasýsludeildar Rauða krossins.
„Við finnum gríðarlegan stuðning. Þetta er alveg stórkostlegt. Það er einfaldlega ekkert annað orð yfir það.“
Hún segir að fjöldi fyrirtækja og einstaklinga hafi styrkt Rauða krossinn og Seyðfirðinga.
„Við erum að fá sendingar frá fyrirtækjum í Reykjavík og alls staðar að af landinu og verið að bjóða gistingar fyrir sunnan ef einhver vill fara suður og vera þar um jólin. Maður er bara klökkur, það er einfaldlega þannig,“ segir Berglind.