Innlent

„Örugglega mjög erfitt fyrir marga bæjarbúa að upplifa þetta“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þórhallur Árnason er varðstjóri hjá lögreglunni á Austurlandi.
Þórhallur Árnason er varðstjóri hjá lögreglunni á Austurlandi. Vísir/Egill

Þórhallur Árnason, varðstjóri hjá lögreglunni á Austurlandi, segir að nú þegar fari að birta verði staðan metin á Seyðisfirði varðandi það hvort mögulegt sé að fara í hreinsunarstarf eftir aurskriðurnar tvær sem féllu á bæinn í nótt. Hann segir bæjarbúa taka einn dag í einu.

Enn er töluvert vatnsveður í bænum og appelsínugul viðvörun í gildi vegna mikilla rigninga. Þá er hættustig almannavarna í gildi vegna skriðuhættu. Fjöldi húsa hefur verið rýmdur vegna skriðuhættu en seinni skriðan sem féll í nótt fór á einbýlishús og flutti það með sér tugi metra.

Ekki er búið í húsinu að staðaldri svo það var mannlaust en auk þess var það inni á rýmingarsvæði við Austurveg og hafði lent í annarri skriðu fyrr í vikunni.

Sunna Karen Sigurþórsdóttir, fréttamaður, og Egill Aðalsteinsson, myndatökumaður, hafa verið á ferð um Seyðisfjörð í morgun og ræddu við Þórhall skömmu áður en það tók að birta almennilega til nú undir hádegi.

Hann sagði allar varúðarráðstafanir enn í gildi. Mikilvægt væri að gæta áfram fyllsta öryggis og bregðast við ef svo bæri undir.

Aðspurður hvort óttast væri að fleiri skriður gætu fallið sagði Þórhallur ekki alveg vitað hvað væri í miðju Nautaklaufarinnar, þeim stað þaðan sem skriðurnar féllu í nótt. Það myndi koma betur í ljós í birtingu.

Ljóst er að aðstæður í bænum eru erfiðar og tjónið töluvert þó enn eigi eftir að meta það. Vatn og aur hefur flætt inn í nokkur hús í bænum, eitt hús hefur færst úr stað eins og áður er getið og þá er vatnsflaumur, aur og grjót úti um allt á götum bæjarins.

Þórhallur segir örugglega erfitt fyrir marga bæjarbúa að upplifa þessar hamfarir.

„Ég held að fólk sé bara að vinna úr þessu eins og þetta er frá degi til dags. Þetta er örugglega mjög erfitt fyrir marga bæjarbúa að upplifa þetta og eins líka fólk sem hefur þurft að fara frá heimilum sínum og svo framvegis og öll þessi óvissa, og taka svo bara stöðuna eftir því sem tíminn líður,“ sagði Þórhallur.

Aurskriður á Seyðisfirði hættustig Heldur hefur bætt í úrkomu á Seyðisfirði. Hreinsunarstarf gengur því hægt þar sem...

Posted by Lögreglan á Austurlandi on Friday, December 18, 2020

Tengdar fréttir

Húsið sem skriðan hreif með sér væntan­lega ó­nýtt

Einbýlishúsið Breiðablik á Seyðisfirði er væntanlega ónýtt eftir að aurskriða tók húsið með sér í nótt og flutti það til um fimmtíu metra. Þetta segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Austurlandi, í samtali við fréttastofu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×