Íslenski boltinn

Víkingar búnir að ræða við Kolbein

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson er markahæsti leikmaður í sögu íslenska landsliðsins ásamt Eiði Smára Guðjohnsen.
Kolbeinn Sigþórsson er markahæsti leikmaður í sögu íslenska landsliðsins ásamt Eiði Smára Guðjohnsen. vísir/vilhelm

Víkingar hafa rætt við Kolbein Sigþórsson um að leika með liðinu í Pepsi Max-deild karla á næsta tímabili. Ríkharð Óskar Guðnason greindi frá þessu í Sportinu í dag.

Kolbeinn leitar sér núna að nýju félagi en ljóst er að hann verður ekki áfram hjá AIK í Svíþjóð.

Stuðningsmenn Víkings hafa leyft sér að dreyma að landsliðsframherjinn snúi aftur heim og spili fyrir liðið í Pepsi Max-deildinni. Og Víkingar eru að reyna að láta þann draum rætast en Kolbeinn vill þó reyna áfram fyrir sér erlendis.

„Víkingar hafa heyrt formlega í Kolbeini Sigþórssyni,“ sagði Rikki G í þætti gærdagsins af Sportinu í dag.

„Þeir eru búnir að tala við hann. Kolbeinn er ekki reiðubúinn að koma heim á þessum tímapunkti. Hann ætlar að reyna að finna sér lið úti. Svo er bara spurning hvort það séu einhver spennandi tilboð fyrir hann í Skandinavíu miðað við Ísland.“

Kjartan Atli Kjartansson spurði hvort það væri ekki alltaf eitthvað lið sem væri tilbúið að veðja á Kolbein, þrátt fyrir meiðslasögu hans.

„Það hlýtur þá að vera í formi bónusgreiðslna og hann þurfi að spila ákveðið marga leiki. Ég held að ekkert lið sé að fara að skuldbinda sig að borga honum há mánaðarlaun vitandi hvernig ferilinn hefur verið undanfarin ár,“ svaraði Rikki. Hann sagðist ekki sjá Kolbein fyrir sér í Pepsi Max-deildinni næsta sumar en ýmislegt gæti gerst.

Kolbeinn er uppalinn hjá Víkingi en hóf meistaraflokksferilinn með HK. Hann hefur leikið erlendis síðan 2007.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×