Fótbolti

Fram á­frýjar til dóm­stóla ÍSÍ

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Knattspyrnudeild Fram er ekki sátt með niðurstöðu áfrýjunardómstóls KSÍ og hefur nú áfrýjað máli sínu til Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.
Knattspyrnudeild Fram er ekki sátt með niðurstöðu áfrýjunardómstóls KSÍ og hefur nú áfrýjað máli sínu til Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Vísir/HAG

Knattspyrnudeild Fram hefur ákveðið að áfrýja úrskurði áfrýjunardómstóls KSÍ í máli Fram gegn stjórn sambandinu til dómstóla Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

Knattspyrnudeild Fram kærði ákvörðun stjórnar Knattspyrnusambands Íslands að láta markatölu ákvarða hvort félagið kæmist upp úr Lengjudeild karla eður ei er Íslandsmótinu í knattspyrnu var hætt í sumar.

Er mótinu var hætt voru Fram og Leiknir Reykjavík jöfn að stigum en Leiknir fór upp úr Lengjudeildinni þar sem liðið var með betri markatölu.

Liðin mættust tvisvar í sumar, bæði lið unnu útileik sinn gegn hvort öðru en Leiknir var einnig með betri markatölu í leikjum þeirra á milli [5-3].

Þann 16. nóvember vísaði Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ máli Fram frá. Var málinu áfraýjað til áfrýjunardómstóls KSÍ sem vísaði málinu til efnislegrar meðferðar hjá Aga- og úrskurðarnefnd.

Málið var að nýju tekið upp hjá Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ þann 25. nóvember síðastliðinn og var kröfum Fram hafnað. Þann 9. desember var málinu vísað frá af áfrýjunar dómstól KSÍ og nú hefur knattspyrnudeild Fram ákveðið að fara með málið til dómstóls Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

Mbl.is greindi frá.


Tengdar fréttir

KR skoðar sín mál en Fram virðist ekki ætla að halda á­fram

KR-ingar ætla að skoða sín mál og hafa ekki tekið ákvörðun með framhaldið eftir að áfrýjunardómstóll KSÍ staðfesti úrskurð aga- og úrskurðarnefndar. Þá var máli Fram vísað frá og virðist sem Fram ætli ekki lengra með málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×