Fram kemur í rýninni að faraldurinn sé nú á réttri leið þrátt fyrir bakslög. Miðað við fyrri spá frá 23. september hefur faraldurinn fylgt kúrfu í samræmi við fræðin, „en augljóslega fyrir utan sérstaklega stór og erfið hópsmit. Þau settu okkur af leið um tíma,“ segir í rýninni. Þá hafi verið fyrirséð að þessi bylgja yrði lengi að deyja út.
Þróun miðað við nýrri spá benda til þess að fjöldi smitaðra fylgi nýrri sviðsmynd frá 26. nóvember, þ.e.a.s. að smitstuðull utan sóttkvíar hafi náð viðsnúningi og hafi lækkað undir einn, hvar ákjósanlegt er að hafa hann. Smitstuðullinn er nú undir einum – en enn geti brugðið til beggja vona.

„Nauðsynlegt er að hafa í huga að okkur hefur ekki tekist að ná smitunum alveg niður. Hluti einstaklinga er einkennalaus og fólk getur smitað án þess að sýna einkenni. Því er auðveldlega hægt að missa af smitum. Fjöldi smita undanfarna daga getur ennþá leitt af sér veldisvísisvöxt samkvæmt fræðunum. Þess vegna verður að fara varlega áfram og ekki gleyma sér þrátt fyrir gott gengi,“ segir í rýninni.
Þá hafi gengið vel hér á landi samanborið við önnur lönd að ná faraldrinum niður. Tíðni tilfella sé með því lægsta miðað við löndin í kring.
„Meira [að] segja lægri tíðni en hjá varkáru vinum okkar Finnum. Mikilvægt er að halda þeirri stöðu. Það mun ganga með þátttöku í þeim aðgerðum sem eru virkar núna: persónulegar sóttvarnir, 2 m regla, samkomutakmarkanir við 10 manns. Leggjum áherslu á grímunotkun og reynum að spara ferðir á fjölmenna staði. Förum í skimun ef við finnum fyrir minnstu einkennum.“