Jafnt í Róm | Mou­koko yngstur í sögu Meistara­deildarinnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Youssoufa Moukoko varð í kvöld yngsti leikmaður sögunnar til að taka þátt í Meistaradeild Evrópu.
Youssoufa Moukoko varð í kvöld yngsti leikmaður sögunnar til að taka þátt í Meistaradeild Evrópu. Alexandre Simoes/Getty Images

Úrslitin réðust í F-riðli Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Lazio tryggði sér sæti í 16-liða úrslitum með 2-2 jafntefli gegn Club Brugge á heimavelli í kvöld. Þá komst Youssoufa Moukoko í sögubækur Meistaradeildarinnar er Borussia Dortmund vann Zenit St. Pétursborg 2-1 í Rússlandi og þar með riðilinn.

Club Brugge endar í 3. sæti og fer því í 32-liða úrslit Evrópudeildarinnar.

Joaquin Correa kom Lazio yfir á Ólympíuleikvanginum í Róm í kvöld en Rud Vomer jafnaði metin skömmu síðar og staðana 1-1 eftir aðeins 15. mínútna leik. Heimamenn fengu vítaspyrnu eftir tæpan hálftíma og skoraði Ciro Immobile af öryggi úr spyrnunni. 

Staðan 2-1 í hálfleik og þannig var hún allt fram á 76. mínútu þegar Hans Vanaken jafnaði metin fyrir gestina. Kom það verulega á óvart þar sem gestirnir frá Belgíu höfðu verið manni færri frá því á 39. mínútu þegar Eduard Sobol fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Gestirnir náðu ekki að pota inn þriðja markinu og lokatölur því 2-2. Úrslitin þýða eins og áður sagði að Lazio kemst í 16-liða úrslit á meðan Club Brugge fer í Evrópudeildina. 

Í Rússlandi kom Borussia Dortmund til baka eftir að lenda 1-0 undir þegar Sebastian Driussi kom Zenit yfir. Lukasz Piszczek og Axel Witsel skoruðu með tíu mínútna millibili fyrir gestina og tryggðu þeim þar með 2-1 sigur og toppsæti riðilsins.

Þá varð Youssoufa Moukoko yngsti leikmaður í sögu Meistaradeildarinnar þegar hann kom inn af bekknum á 58. mínútu leiksins. Kom hann inn á fyrir Felix Passlack í stöðu hægri vængbakvarðar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira