Skoðun

Há­lendis­þjóð­garður þarfnast sam­þykkis sveitar­stjórna

Friðrik Már Sigurðsson skrifar

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, auðlinda- og umhverfisráðherra hefur lagt fyrir Alþingi frumvarp til laga um stofnun Hálendisþjóðgarðs. Samkvæmt þingmálaskrá Stjórnarráðsins felur lagasetningin í sér að ráðherra verði heimilt að friðlýsa tilteknu landsvæði á miðhálendinu sem þjóðgarði. Þessari grein er ekki ætlað að gagnrýna markmið eða efnistök laganna, heldur að gera grein fyrir því að hugmyndir um heildstæðan þjóðgarð á miðhálendi Íslands geti ekki raungerst nema með samþykki sveitarstjórna þeirra sveitarfélaga sem tillaga að mörkum þjóðgarðs tekur til.

Ríkir óstjórn á hálendi Íslands?

Tryggvi Felixson formaður Landverndar skrifar í grein sinni á vef félagsins að Hálendisþjóðgarður jafnist á við nýja landhelgi. Þar vísar hann í skrif Styrmis Gunnarssonar, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, sem tengir stofnun þjóðgarðs á hálendinu við stækkun fiskveiðilögsögunnar. Með þessu tengja þeir útfærslu fullveldisréttar Íslands á landhelgi og efnahagslögsögu við mögulega stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu.

Í þessu samhengi er mikilvægt að hafa í huga að það ríkir engin óvissa um stjórn svæða á hálendi Íslands. Samkvæmt lögum skiptist landið í sveitarfélög sem sjálf ráða málefnum sínum á eigin ábyrgð. Sveitarfélögin hafa ákveðin staðarmörk, þar með taldar eru þær þjóðlendur sem innan þeirra liggja. Um stjórn innan þessarra marka fara sveitarstjórnir sem kjörnar eru í lýðræðislegri kosningu af íbúum þeirra. Réttur sveitarfélaga til sjálfstjórnar hefur verið verndaður í stjórnarskrá allt frá 1874. Þau eru handhafar framkvæmdavaldsins, fara með staðbundna stjórnsýslu og gegna mikilvægu lýðræðislegu hlutverki.

Sjálfstjórn sveitarfélaga verði virt

Samkvæmt náttúruverndarlögum hefur umhverfis- og auðlindaráðherra heimild til að leggja fram frumvarp til friðlýsingar svæða og gera þau að þjóðgarði. Samkvæmt lögunum skulu ákvarðanir ráðherra um friðlýsingar byggja á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár. Ráðherra er þó heimilt að ákveða friðlýsingu utan áætlunar með samþykki landeiganda og viðkomandi sveitarfélags.

Friðlýsing miðhálendisins sem svæðis er ekki að finna í framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár sem finna má á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands. Hins vegar má þar finna stök svæði sem liggja innan marka fyrirhugaðs þjóðgarðs, en stór svæði innan fyrirhugaðra marka eru ekki á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár.

Af þessu leiðir að einn heildstæður þjóðgarður á miðhálendinu getur því ekki raungerst nema með samþykki viðkomandi sveitarstjórna. Engar bókanir um slíkt samþykki má finna í fundargerðum sveitarstjórna þeirra sveitarfélaga sem fara með stjórn á miðhálendinu. Framkomið frumvarp tekur þannig ekki tillit til stjórnarskrárvarinna réttinda sveitarfélaga til sjálfstjórnar.

Í samræmi við stjórnarsáttmála?

Í aðdraganda stofnunar Vatnajökulsþjóðgarðs voru sveitarfélög á svæðinu virkir þátttakendur. Árið 2004 undirrituðu fulltrúar sveitarstjórna og þáverandi umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, viljayfirlýsingu um stækkun þjóðgarðs í nágrenni Vatnajökuls. Þessi viljayfirlýsing lagði grunninn að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs eins og við þekkjum hann í dag.

Núverandi umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ekki unnið á þessum grunni og hefur ekki undirritað viljayfirlýsingu með fulltrúum sveitarstjórna um stofnun Hálendisþjóðgarðs. Engar bókanir um slíkt má finna í fundargerðum sveitarstjórna þeirra sveitarfélaga sem fara með stjórn á miðhálendinu.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir: „Stofnaður verður þjóðgarður á miðhálendinu í samráði þverpólitískrar þingmannanefndar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, sveitarfélaga, náttúruverndar- og útivistarsamtaka og annarra hagsmunaaðila.” Þessi fyrirætlan felur þannig í sér stofnun þjóðgarðs í sátt við sveitarfélögin. Mikilvægi samráðs og sáttar er einnig tilgreint sérstaklega í áformum um lagasetninguna sem finna má í samráðsgátt stjórnvalda. Í umsögnum sveitarfélaganna Húnaþings vestra, Sveitarfélagsins Skagafjarðar, Húnavatnshrepps, Fljótsdalshrepps, Bláskógabyggðar, Rangárþings ytra auk annarra sveitarfélaga, er lýst verulegum áhyggjum af inntaki frumvarpsins og ganga þau jafnvel svo langt í bókunum sínum að leggjast alfarið gegn stofnun þjóðgarðs á hálendinu. Sú sátt sem tilgreind er í stjórnarsáttmálanum er því bersýnilega ekki til staðar. Af því leiðir að fyrirliggjandi frumvarp til laga um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu er ekki í samræmi við inntak stjórnarsáttmálans.

Það þarf samþykki til

Til að frumvarp umhverfis- og auðlindaráðherra nái fram að ganga er nauðsynlegt að taka tillit til stjórnarskrárvarinna réttinda sveitarfélaganna til sjálfstjórnar. Hvað varðar mörk fyrirhugaðs þjóðgarðs á miðhálendinu þá verður samþykki sveitarstjórna að liggja fyrir ef um er að ræða landsvæði sem eru utan framkvæmdaáætlunar náttúruminjaskrár. Lagasetning um stofnun eins heildstæðs þjóðgarðs á miðhálendi Íslands getur því ekki raungerst nema slíkt samþykki liggi fyrir. Þær áhyggjur sem fjölmörg sveitarfélög hafa lýst yfir í umsögnum sínum við frumvarpið beinast að einmitt þessu og eiga því við rök að styðjast. Af þessu leiðir að Alþingi getur ekki samþykkt frumvarpið í þeirri mynd sem það er í dag, slíkt myndi ekki taka tillit til stjórnarskrárvarinna réttinda sveitarfélaga til sjálfstjórnar. Þess vegna er nauðsynlegt fyrir umhverfis- og auðlindaráðherra að stíga skref til baka og leita eftir samþykki sveitarstjórna vegna stofnunar Hálendisþjóðgarðs.

Höfundur er sveitarstjórnarfulltrúi í Húnaþingi vestra.




Skoðun

Skoðun

21 blár

Jón Pétur Zimsen skrifar

Sjá meira


×