Erlent

Giuliani lagður inn á sjúkrahús

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Rudy Giuliani, lögmaður Donalds Trumps, Bandaríkjaforseta.
Rudy Giuliani, lögmaður Donalds Trumps, Bandaríkjaforseta. AP/Charles Krupa

Rudy Giuliani, lögfræðingur Donalds Trump forseta og fyrrverandi borgarstjóri New York hefur verið lagður inn á sjúkrahús en hann greindist með Covid-19 um helgina.

Forsetinn greindi fyrst frá smiti Giulianis á Twitter í gær þar sem hann óskaði honum velfarnaðar en Giuliani hefur verið á þeytingi vítt og breitt um Bandaríkin til að reyna að snúa forsetakosningunum sem fram fóru í nóvember Trump í hag, með engum árangri þó.

Hann hefur margsinnis verið gagnrýndur fyrir að hlýða ekki tilmælum sóttvarnayfirvalda í faraldrinum. Hann segist sjálfur á Twitter vera við góða heilsu og á batavegi og því óljóst hvort hann sýni einkenni eða hvers vegna hann var lagður inn á spítala.

Um 14,6 milljónir manna hafa nú greinst með kórónuveiruna í Bandaríkjunum og næstum 282 þúsund hafa dáið af hennar völdum, fleiri en í nokkru öðru ríki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×