Lögregla, sjúkraflutningarmenn og björgunarsveitir í Árnessýslu voru kallaðar út á sjöunda tímanum í gærkvöldi eftir að maðurinn hafði sjálfur kallað eftir aðstoð. Hann sat þá fastur í vatni úti á mýri.
Mikið hafði dregið af manninum þegar komið var að honum og missti hann meðvitund skömmu síðar. Endurlífgunartilraunir báru ekki árangur og var maðurinn úrskurðaður látinn við komu á Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir við Vísi að maðurinn hafi sennilega stigið niður úr klaka þegar hann var að störfum á landi sínu. Ekki sé vitað hvort hann hafi stigi ofan í á eða vatn. Mýrar og keldur séu um allt á svæðinu en niðamyrkur var þegar slysið varð. Ekki sé heldur ljóst hversu djúpt maðurinn sökk í vatnið. Beðið sé niðurstöðu krufningar um dánarorsökina.