Fótbolti

Frumherjinn Frappart sem heldur áfram að mölva glerþakið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stephanie Frappart er sannkallaður brautryðjandi.
Stephanie Frappart er sannkallaður brautryðjandi. getty/Nicolò Campo

Stéphanie Frappart braut blað í fótboltasögunni í fyrradag þegar hún varð fyrsta konan til að dæma leik í Meistaradeild Evrópu í karlaflokki. Þetta er þó langt því frá fyrsti stóri áfanginn sem hún nær á sínum dómaraferli.

Frappart dæmdi leik Juventus og Dynamo Kiev í G-riðli Meistaradeildarinnar í gær. Ítalíumeistararnir unnu þægilegan 3-0 sigur og Frappart fékk góða dóma fyrir frammistöðu sína í leiknum.

Eins og áður sagði er þetta ekki fyrsta glerþakið sem Frappart brýtur á sínum dómaraferli. Hún varð t.a.m. fyrsta konan til að dæma í B-deild karla í Frakklandi en hún hefur dæmt þar síðan 2014.

Árið 2019 var síðan risastórt á ferli Frappart. Hún varð fyrsta konan til að dæma í frönsku úrvalsdeildinni í karlaflokki þegar hún dæmdi leik Amiens og Strasbourg 28. apríl. Hún hefur dæmt nokkra leiki í frönsku úrvalsdeildinni á þessu tímabili og á sunnudaginn verður hún dómari í leik Reims og Nice.

Frappart og dómarakvinvettinn stillir sér upp eftir úrslitaleik HM 2019.getty/Elsa

Frappart dæmdi úrslitaleik HM kvenna í Frakklandi í fyrra þar sem Bandaríkin unnu Holland, 2-0. Alls dæmdi hún fjóra leiki á heimsmeistaramótinu. Frappart dæmdi einnig á HM 2015, Ólympíuleikunum 2016 og á EM 2017.

Þann 14. ágúst 2019 dæmdi Frappart leikinn um Ofurbikar Evrópu þar sem Liverpool og Chelsea áttust við. Hún varð þar með fyrsta konan til dæma úrslitaleik í Evrópukeppni karla. Liverpool vann leikinn í vítaspyrnukeppni.

Frappart lyftir gula spjaldinu í leiknum um Ofurbikar Evrópu í fyrra.getty/Chris Brunskill

Frappart dæmdi sinn fyrsta leik í Evrópudeild karla í október þegar Leicester City tók á móti Zorya Luhansk. Frappart er reyndar ekki fyrsta konan sem dæmir í Evrópudeild/Evrópukeppni félagsliða karla. 

Það met á hin svissneska Nicole Petignat en hún dæmdi nokkra leiki í forkeppni Evrópukeppni félagsliða á árunum 2004-09. Petignat var lengi dómari í efstu deild í Austurríki og Sviss og dæmdi m.a. úrslitaleik svissnesku bikarkeppninnar 2007.

Klesst'ann! Frappart og Andrea Pirlo, knattspyrnustjóri Juventus, eftir leikinn í Tórínó í fyrradag.getty/Jonathan Moscrop

Frappart fékk svo sitt fyrsta tækifæri í Meistaradeild karla í fyrradag þegar hún dæmdi leik Juventus og Dynamo Kiev eins og fyrr sagði.

Frappart, sem er 36 ára, hefur verið alþjóðlegur dómari síðan 2009. Þess má geta að hún dæmdi leik Svíþjóðar og Íslands í undankeppni EM í október. Svíar unnu þá 2-0 sigur.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×