Innlent

Fjór­tán greindust innan­­lands og voru þrettán þeirra í sótt­kví

Atli Ísleifsson skrifar
Rúmlega 5.400 manns hafa smitast af kórónuveirunni á Íslandi frá upphafi faraldursins.
Rúmlega 5.400 manns hafa smitast af kórónuveirunni á Íslandi frá upphafi faraldursins. Vísir/Vilhelm

Fjór­tán greindust með kórónu­veiruna innan­lands í gær. Þrettán af þeim fjórtán sem greindust voru í sóttkví við greiningu, eða 93 prósent.

Þetta kemur fram í uppfærðum tölum á vefnum covid.is. 38 eru nú á sjúkrahúsi vegna Covid-19 og þar af tveir á gjörgæslu. Í gær voru 39 á sjúkrahúsi, þar af tveir á gjörgæslu.

Fjórir greindust á landamærum – einn með virkt smit og er niðurstöðu mótefnamælingar beðið í tilvikum þriggja.

205 manns eru nú í einangrun, en fjöldinn var 204 í gær. Þá eru 670 í sóttkví í dag, samanborið við 639 í gær.

Þriðja bylgjan.

Af þeim fjórtán sem greindust í gær greindust sjö eftir svokallaða einkennasýnatöku en sjö eftir sóttkvíar- og handahófsskimun.

Nýgengi innanlandssmita, þ.e. fjöldi smitaðra á hverja 100 þúsund íbúa undanfarnar tvær vikur, er nú 45,5 en var 42,8 í gær. Þá er nýgengi landamærasmita nú 12,8 líkt og í gær.

Alls voru tekin 1.110 einkennasýni hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítalans og Íslenskri erfðagreiningu í gær og 343 sýni á landamærunum eða í seinni landamæraskimun. Þá voru tekin 174 sýni í svokallaðri sóttkvíar- og handahófsskimun og 34 í annarri skimun hjá Íslenskri erfðagreiningu.

Alls hafa nú 5.448 manns greinst með kórónuveiruna á Íslandi frá upphafi faraldursins.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×