Lífið

Fjórir fyrr­verandi sigur­vegarar taka þátt í Melodi­festiva­len

Atli Ísleifsson skrifar
Charlotte Perelli hefur tvívegis verið fulltrúi Svíþjóðar í Eurovision. Í fyrra skiptið, árið 1999, vann hún keppnina með lagið Take Me to Your Heaven.
Charlotte Perelli hefur tvívegis verið fulltrúi Svíþjóðar í Eurovision. Í fyrra skiptið, árið 1999, vann hún keppnina með lagið Take Me to Your Heaven. Getty

Að minnsta kosti fjórir fyrrverandi fulltrúar Svíþjóðar í Eurovision munu taka þátt í Melodifestivalen, undankeppni Svía fyrir Eurovision-keppnina sem fram fer í Rotterdam í maí næstkomandi.

Aftonbladet hefur birt lista yfir 27 atriði sem munu taka þátt af alls 28.

Á þeim lista má meðal annars sjá sveitina The Mamas sem bar sigur úr býtum í Melodifestivalen fyrr á árinu með laginu Move. Þar sem Eurovision-keppninni var aflýst í vor vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar varð þó aldrei úr því að þær stigu á stóra sviðið. 

Þær höfðu þó séð um bakraddir í sænska framlaginu árið 2019 – Too Late for Love með John Lundvik sem hafnaði í fimmta sæti.

Á listanum er einnig að finna Charlotte Perelli sem vann sigur í Eurovision árið 1999 með laginu Take Me to Your Heaven, þá undir nafninu Charlotte Nilsson. 

Það var einmitt árið sem Selma Björnsdóttir hafnaði í öðru sæti með laginu All Out of Luck. Perelli var einnig fulltrúi Svía í Eurovision árið 2008 með lagið Hero. Hafnaði hún þá í átjánda sæti.

Eric Saade mun einnig taka þátt í Melodifestivalen, en hann var fulltrúi Svía árið 2011 með laginu Popular og hafnaði þá í þriðja sæti.

Einnig má nefna sveitina Arvingarna sem voru fulltrúar Svía í Eurovision árið 1993. Fluttu þeir þá lagið Eloise og höfnuðu í sjöunda sæti.

Meðal annarra atriða sem verða í Melodifestivalen í ár má nefna Danny Saucedo, Anton Ewald, Elisa Lindström og Dotter.

Melodifestivalen fer fram dagana 6. febrúar til 13. mars án áhorfenda og alltaf í Stokkhólmi, en öll undanúrslitakvöldin hafa verið haldið víðs vegar um Svíþjóð síðustu ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.