Fylkismenn hafa fengið liðsstyrk úr Grafarvoginum því Torfi Tímoteus Gunnarsson er mættur í Árbæinn frá Fjölni.
Torfi skrifaði undir samning til tveggja ára við Fylki. Hann er 21 árs miðvörður sem lék sína fyrstu leiki í úrvalsdeild árið 2017.
Torfi er uppalinn hjá Fjölni og hefur leikið með liðinu allan sinn feril utan ársins 2019 þegar hann var að láni hjá KA á meðan að Fjölnir lék í næstefstu deild. Hann hefur því leikið fjögur síðustu tímabil í efstu deild.
Torfi kom hins vegar lítið við sögu hjá Fjölni á síðustu leiktíð, þegar meiðsli settu stórt strik í reikninginn hjá honum. Hann lék aðeins sex leiki, þar af fjóra í byrjunarliði. Fjölnir féll úr Pepsi Max-deildinni en Fylkir endaði í 6. sæti og var í harðri baráttu um Evrópusæti þegar mótið var blásið af.
Torfi á að baki 29 leiki með yngri landsliðum Íslands, þar af níu með U21-landsliðinu.
Fjölnir gekk fyrr í vikunni frá samningi við tvo leikmenn sem munu spila með liðinu í Lengjudeildinni. Hinn fjölhæfi og reynslumikli Dofri Snorrason kom frá Víkingi R. og sóknarmaðurinn Andri Freyr Jónasson kom frá Aftureldingu þar sem hann var fyrirliði.
Dofri og Andri Freyr í Fjölni (Staðfest) https://t.co/kIcDBN8yx8
— Fótbolti.net (@Fotboltinet) November 24, 2020