Innlent

Fjárlaganefnd skoðar hvort falin aðhaldskrafa sé á Landspítalanum

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. visir/vilhelm

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata og nefndarmaður í fjárlaganefnd Alþingis, segir vísbendingar um að fjármálaráðuneytið vanreikni kostnað sem fellur á stofnanir við að uppfylla kjarasamninga. „Það er falin aðhaldskrafa ef svo er satt,“ sagði Björn Leví.

„Það verður verkefni fjárlaganefndar á næstunni að skoða það mál mjög vel. Því ef satt reynist er það mjög alvarlegt að verið sé að fela aðhaldskröfu til stofnana með slíkum útreikningum.“

Farið var yfir rekstrarstöðu Landspítalans á fundi fjárlaganefndar í morgun.  Líkt og fram hefur komið nam uppsafnaður halli Landspítalans 3,8 milljörðum króna í árslok 2019. Í yfirlýsingu heilbrigðisráðuneytisins segir að spítalinn hafi farið fram úr fjárlögum á síðustu árum og gert er ráð fyrir að hann fái svigrúm til að vinna hallann upp á næstu þremur árum.

Í umræðum um stöf þingsins á Alþingi í dag sagði Björn Leví að hallarekstur áranna 2018 og 2019 væri óútskýrður samkvæmt ársskýrslu ráðherra. Skýringar Landspítala á stöðunni væru hins vegar skýrar. „Hallinn útskýrist aðallega af mönnunarvanda og skorti á aðstöðu fyrir þau sem eru tilbúin til þess að útskrifast úr meðferð, svokallaður fráflæðisvandi,“ sagði hann.

„Annað hins vegar sem útskýrir vandann og er dálítið áhugaverðara, ef hægt er að komast þannig að orði, er halli vegna vanreiknings í kjarasamningum. Það er að segja eftir að kjarasamningar eru gerðir eru vísbendingar um að fjármálaráðuneytið vanreikni kostnaðinn sem fellur á stofnanir við að uppfylla þá kjarasamninga,“ sagði Björn Leví.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×