Íslenski boltinn

Kristín Erna komin aftur heim

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristín Erna Sigurlásdóttir í leik með ÍBV á móti Breiðabliki sumarið 2019.
Kristín Erna Sigurlásdóttir í leik með ÍBV á móti Breiðabliki sumarið 2019. Vísir/Daníel

Kristín Erna Sigurlásdóttir ætlar að taka slaginn með uppeldisfélaginu sínu í Pepsi Max deild kvenna á næstu leiktíð en þessi 29 ára gamli sóknarmaður er á heimleið.

Eyjamenn sögðu frá því á síðum sínum að Kristín Erna hafi skrifað undir samning við uppeldisfélag sitt eftir stutt stopp í Vesturbænum með liði KR.

Þetta er í annað skiptið sem Kristín Erna kemur heim en hún snéri líka aftur til Eyja fyrir tímabilið 2017 eftir eitt sumar með Fylki.

Kristín Erna Sigurlásdóttir var með eitt mark og þrjár stoðsendingar í 14 leikjum með KR í Pepsi Max deild kvenna í ár en KR-konur féllu úr deildinni.

Kristín Erna skoraði 8 mörk í 16 deildarleikjum með ÍBV sumarið 2017 og varð þá meðal annars bikarmeistari með liðinu. Kristín skoraði þá jöfnunarmarkið í bikarúrslitaleiknum sem tryggði ÍBV framlengingu.

Kristín Erna er sjötta markahæst hjá kvennaliði ÍBV í efstu deild með 42 mörk í 104 leikjum en þetta verður hennar áttunda tímabil með Eyjaliðinu í efstu deild og tólfta tímabilið með meistaraflokki ÍBV.

Posted by ÍBV Vestmannaeyjar on Miðvikudagur, 25. nóvember 2020



Fleiri fréttir

Sjá meira


×