Fótbolti

KA-menn misstu heimsmetið sitt í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
KA-menn fagna Íslandsmeistaratitli sínum á forsíðu íþróttakálfs DV 18. september 1989 og til hliðar má sjá Alfons Sampsted og félaga í norska félaginu Bodö/Glimt fagna sigri sínum í gær.
KA-menn fagna Íslandsmeistaratitli sínum á forsíðu íþróttakálfs DV 18. september 1989 og til hliðar má sjá Alfons Sampsted og félaga í norska félaginu Bodö/Glimt fagna sigri sínum í gær. Skjámynd/Timarit.is/DV/Twitter@Glimt

Íslenskur landsliðsbakvörður hjálpaði Norðmönnum að eignast heimsmet sem hefur verið í eigu okkar Íslendinga í meira en 31 ár.

Alfons Sampsted og félagar í norska félaginu Bodö/Glimt tryggðu sér í gær norska meistaratitilinn og um leið nýtt heimsmet.

KA á Akureyri var þangað til í gær það nyrsta félagið sem hafði orðið landsmeistari í knattspyrnu í heiminum. Eftir sigur Bodö/Glimt í gær þá eiga Norðmenn nú heimsmetið.

Bodö/Glimt spilar heimaleiki sína á Aspmyra leikvanginum í Bodö sem er á 67. breiddargráðu (67°16′35.9″N). Akureyri er aftur á móti aðeins sunnar eða á 65 breiddargráðu (65°41′9.9″N).

Þetta er nefnilega í fyrsta sinn sem Bodö/Glimt vinnur norsku deildina en liðið varð í öðru sæti í fyrra og hafði einnig þurft að sætta sig við silfurverðlaun 1977, 1993 og 2003.

Íslenski bakvörðurinn átti annars frábæra viku því nokkrum dögum fyrr komst hann með íslenska 21 árs landsliðinu á EM.

Eini Íslandsmeistaratitill KA-manna er frá árinu 1989 þegar félagið varð meistari undir stjórn Guðjóns Þórðarsonar og með Þorvald Örlygsson sem besta leikmann.

Það munaði reyndar litlu að KA-menn misstu heimsmetið strax árið eftir því sumarið 1970 þá varð Tromsö í öðru sæti í norsku deildinni. Tromsö er enn norðar en Bodö eða á 70. breiddargráðu og en hefur aldrei náð að vinna norsku deildina.

Tromsö liðið gæti hins vegar tekið þetta heimsmet af Bodö verði liðið norskur meistari í framtíðinni. Tromsö er í norsku b-deildinni í dag en er á toppi hennar og spilar því væntanlega í úrvalsdeildinni árið 2021.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×