Innlent

Fimmtán greindust innanlands

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá sýnatökustað vegna kórónuveirunnar við Suðurlandsbraut í Reykjavík.
Frá sýnatökustað vegna kórónuveirunnar við Suðurlandsbraut í Reykjavík. Vísir/Vilhelm

Fimmtán manns greindust smitaðir af kórónuveirunni innanlands síðasta sólarhringinn. Þrettán þeirra voru í sóttkví við greiningu samkvæmt nýjustu tölum landlæknis og almannavarna.

Af þeim fimmtán sem greindust innanlands í gær greindust átta eftir að tekin voru svokölluð einkennasýni og sjö greindust í svokallaðri sóttkvíar- og handahófsskimun.

Nú eru 52 á sjúkrahúsi vegna Covid-19, þar af þrír á gjörgæslu, jafnmargir og í gær. Í gær voru 52 á sjúkrahúsi og þar af þrír á gjörgæslu. Í einangrun eru nú 224 manns en 232 í gær. Þá eru 217 í sóttkví í dag en 318 í gær.

Nýgengi innanlandssmita, þ.e. fjöldi smitaðra á hverja 100 þúsund íbúa undanfarnar tvær vikur, er nú 45,8 en var 48,5 í gær. Þá er nýgengi landamærasmita nú 11,2 en var 10,6 í gær.

Á landamærunum greindist einn með virkt smit við skimun. Annar greindist með virkt smit við aðra skimun eftir komu til landsins. Beðið er niðurstaðna úr mótefnamælingu í einu tilfelli.

Núverandi bylgja faraldursins hefur verið í rénun undanfarna daga. Mest greindust ellefu manns smitaðir á miðvikudag. Aðra daga vikunnar var fjöldinn undir tíu, fjórir þegar minnst lét á miðvikudag.

Nú hafa 5.269 manns greinst smitaðir af kórónuveiru frá upphafi faraldursins. Á síðunni segir að af þeim veikst hafa af Covid-19 eru 26 nú látnir.

Fréttin verður uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×