Skoðun

Flóttabörnin sem ekki fá að tala

Andrés Ingi Jónsson skrifar

Á afmælisdegi barnasáttmálans er gott að skoða hvernig við stöndum okkur að fara eftir ólíkum þáttum hans. Þau ákvæði sem reynast stundum flóknust í framkvæmd snúast um rétt barna til að tjá sig um málefni sem hafa áhrif á líf þeirra – og skyldu hinna fullorðnu til að taka mark á því sem þau hafa að segja.

Allt of oft dúkka upp dæmi þar sem réttur barna til að tjá sig er ekki virtur. Undanfarið hefur þetta verið sérstaklega áberandi í málefnum barna sem hafa sótt um alþjóðlega vernd hér á landi. Ákvörðun stjórnvalda um að vísa börnum úr landi varðar verulega hagsmuni þeirra, þannig að eðlilegt er að spyrja hvort þau fái að tjá sig. Er verið að spyrja hvernig þau sjálf meti hagsmuni sína?

Stutta og sorglega svarið er: Nei.

Vissulega hefur það orðið sífellt algengara á undanförnum árum að tekin séu viðtöl við börn á flótta, en árið 2019 var staðan samt sú að Útlendingastofnun tók ekki viðtal við nema 23% þeirra barna sem tengdust umsóknum um alþjóðlega vernd. Jafnvel þó að við drögum línu við 6 ára aldurinn, þegar ætla má að barn geti myndað sér nokkuð skýra skoðun og tjáð hana, þá voru ekki tekin viðtöl nema við 41% á síðasta ári. Stjórnvöld taka viðtöl við minna en helming barnanna sem til okkar leita!

Þessar tölur komu fram í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn minni um börn og umsóknir um alþjóðlega vernd. Þar birtist líka staðreynd sem ætti að valda áhyggjum hjá þeim sem vilja standa með réttindum barna: „Foreldrar þeirra barna sem eru í fylgd hafa þó forræði á því hvort viðtal við barn eða börn þeirra fari fram enda fara þau ein með forsjá barnsins eða barnanna“.

Barnasáttmálinn er ekki valkvæður. Hann segir mjög skýrt að börn eigi rétt á því að tjá sig um málefni sem hafa áhrif á líf þeirra og það er ekki í boði fyrir foreldra að afsala börnum þessum rétti sínum. Meðan þessi glufa hefur ekki verið lagfærð, þá er staðan einfaldlega sú að Ísland sinnir ekki skyldu sinni gagnvart börnum á flótta.

Höfundur er alþingismaður.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×