Innlent

„Þetta er bara mjög erfitt í framkvæmd“

Samúel Karl Ólason skrifar

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir, segir að ekki sé misræmi á milli því hvernig skólastarf fer fram og hvernig íþróttastarf fer fram. Aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla hefur lýst yfir undrun sinni á því að ekki hafi verið létt á sóttvörnum grunnskóla á sama tíma og íþróttastarf barna var heimilað.

Grímuskylda og fjöldatakmarkanir tóku gildi hjá fimmta bekk og upp úr í byrjun mánaðar og íþróttastarf barna hefur verið óheimilt frá 8. október. Nýverið var ákveðið að íþróttir barna yrðu heimilaðar á ný og í gær tilkynnti heilbrigðisráðherra að grímuskylda yrði afnumin hjá börnum í fimmta til sjöunda bekk.

Í viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni nú síðdegis vísaði Þórólfur til þess að grímuskylda og tveggja metra reglan hafi verið afnumin í 5. - 7. bekk og grímuskylda kennara þeirra bekkja sömuleiðis.

„Þannig að við erum að létta af. Fjöldamörkum var breytt í 50 í neðri bekkjum og 25 í efri bekkjum, þannig að við höfum verið að slaka á,“ sagði Þórólfur. Hann sagðist ekki sjá ósamræmi þarna. Auðvitað vildu einhverjir sjá þetta öðruvísi en aflétting í skólum væri flókin. Verið væri að vinna hana með heilbrigðis-, og menntamálaráðuneytunum.

„Þetta er bara mjög erfitt í framkvæmd, að aflétta mjög hægt og það sýnist sitt hverjum hvernig er best að gera það. En við verðum bara að lifa með það held ég,“ sagði Þórólfur.

Varðandi blöndun bekkja á íþróttaæfingum sagði Þórólfur að börn væru mun lengur saman í skólanum en á íþróttaæfingum. Það skipti ekki bara máli hve margir hittast heldur einnig hve lengi samneytið stendur yfir.

Takmarkaðar aðgerðir skiluðu ekki árangri

Aðspurður um hvort mikið hafi verið um smit sem tengjast þeirri einyrkjastarfsemi sem hefst aftur á morgun, sagði Þórólfur aðgerðirnar ekki snúast um hvar hægt væri að benda á smit. Nánast allri hópamyndun hafi verið lokað. Aðgerðirnar hafi gengið út á það.

„Þær gengu ekkert endilega út á að loka bara því þar sem við gátum bent á að þarna hefði greinst smit,“ sagði Þórólfur. Það væri vegna þess að ekki væri búið að finna uppruna um 15 til 20 prósent greindra smita.

Í byrjun hafi það verið reynt markvisst, að greina smit og loka stöðum þar sem áhættan væri mest. Það hafi ekki skilað miklu.

„Það var ekki fyrr en við fórum í þessar víðtæku aðgerðir að við fórum að sjá árangur. Þannig ég held að menn þurfi að líta á þetta þannig. Það þarf að grípa til víðtækra aðgerða til að sjá árangur. Það er það sem hefur gerst núna.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×