Erlent

Páfi heitir því að uppræta misnotkun innan kirkjunnar

Kjartan Kjartansson skrifar
Frans páfi við almenna áheyrn í Páfagarði í dag.
Frans páfi við almenna áheyrn í Páfagarði í dag. Vísir/EPA

Frans páfi hét því að uppræta kynferðislega misnotkun innan veggja kaþólsku kirkjunnar í kjölfar umfangsmikillar skýrslu um kynferðisbrot bandarísks fyrrverandi kardinála sem var birt í gær. Forverar Frans í embætti veittu kardinálanum framgang þrátt fyrir að þeim væri kunnugt um ásakanir á hendur honum.

Ummæli páfa í dag voru þau fyrstu frá því að skýrslan um kynferðisbrot Theodore McCarrick, fyrrverandi kardinála, var gerð opinber í gær. McCarrick er talinn hafa misnotað börn og unga karlmenn þegar hann var prestur í New York á áttunda áratug síðustu aldar.

Hét Frans því að uppræta „þessa illsku“ úr kirkjunni, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Jóhannes Páll páfi annar hækkaði McCarrick í tign árið 2000 þrátt fyrir ásakanir um kynferðisbrot. Trúði hann neitunum McCarrick og bandarískra biskupa sem veittu rangar eða misvísandi upplýsingar um hverju eftirgrennslan þeirra hefði skilað. Átta árum síðar hafnaði Benedikt sextándi tillögum ráðgjafa sinna um að kirkjan rannsakaði McCarrick. Þess í stað varaði hann kardinálann við og sagði honum að hafa hægt um sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×